Fjórir leikir fóru fram í tólftu umferð Dominos deildar kvenna í kvöld. Í Borgarnesi tóku bikarmeistarar Skallagríms á móti Breiðablik.

Gangur leiksins.

Blikarnir voru ákveðnari í upphafi leiks og náði 6-3 forystu. Til að gera langa sögu stutta var það í eina skiptið í leiknum sem Blikar voru í forystu. Fyrsti leikhluti var tiltölulega í járnum og var staðan að honum loknum 17-10. Eftir það voru Borgnesingar með tögl og haldir á leiknum og fóru með 34-19 forystu í hálfleikinn.

Um miðbik þriðja leikhluta náðu Blikar fínu áhlaupi og minnkuðu muninn í 12 stig. Eftir það settu Borgnesingar aftur í gírinn og bættu enn í muninn í fjórða leikhluta. Lokastaðan 80-48 öruggur sigur Skallagríms.

Atkvæðamest

Keira Robinson var stigahæst í liði Skallagríms með 31 stig og 8 stoðsendingar. Sanja Orazovic var einnig öflug með 14 stig, 16 fráköst, 6 stoðsendingar og 2 varin skot. Vert er að nefna að tvær ungar Skallagrímskonur léku í kvöld, annars vegar hin 14 ára Aðalheiður Ella Ásmundsdóttir sem átti frábær tilþrif í leiknum þegar hún setti sína fyrstu körfu í meistaraflokki. Einnig var það hin 15 ára Heiður Karlsdóttir sem átti sterka innkomu í lokin.

Ísabella Ósk Sigurðardóttir var öflugst í liði Breiðablik með 12 stig og 14 fráköst. Jessica Kay Loera var þá með 13 stig og 6 stoðsendingar. Blikar hinsvegar verða að fá meira frá Jessicu sem og Ivu Georgieva sem bætir því miður ákaflega litlu við lið Blika.

Hvað næst?

Borgnesingar hafa nú unnið sex leiki í deildnni og sitja í fimmta sæti deildarinnar. Liðið spilaði vel í dag og er til alls líklegt þegar það er í þessum ham. Næsti leikur er í Grafarvogi eftir slétta viku.

Breiðablik er í 6. sæti eftir leik kvöldsins og virðast vera að missa af baráttunni um sæti í úrslitakeppni. Næsti leikur liðsins er um næstu helgi þegar liðið heimsækir Keflavík.

Tölfræði leiksins