Stjarnan lagði Tindastól í kvöld í 11. umferð Dominos deildar karla, 98-93. Eftir leikinn er Stjarnan í 2.-3. sæti deildarinnar ásamt Þór með 16 stig á meðan að Tindastóll er í 6.-8. sætinu ásamt ÍR og Njarðvík með 10 stig.

Gangur leiks

Stjarnan mætti mun betur til leiks en Tindastóll. Byrja leikinn á góðum 13-2 kafla, en Stólarnir er þó nokkuð fljótir að ranka við sér. Staðan eftir fyrsta leikhluta 25-22 Stjörnunni í vil. Leikurinn er áfram nokkuð jafn undir lok fyrri hálfleiksins, staðan 50-47 þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik.

Í upphafi seinni hálfleiksins skiptast liðin á stuttum áhlaupum þar sem að Stjarnan er oftar en ekki á undan. Munurinn svipaður eftir þrjá leikhluta, 4 stig, 79-75. Í lokaleikhlutanum gerðu gestirnir hvað þeir gátu til að brjóta á bak aftur sterkt lið heimamanna, en allt kom fyrir ekki. Lokaniðurstaðan fimm stiga sigur Stjörnunnar, 98-93.

Tölfræðin lýgur ekki

Boltinn gekk nokkuð betur hjá Stjörnunni en Tindastól í leik kvöldsins. Stjarnan með 25 stoðsendingar í leiknum á móti aðeins 16 hjá Tindastól.

Kjarninn

Sigurinn í kvöld var virkilega sterkur fyrir Stjörnuna. Einhver munur á liðunum í töflunni fyrir leikinn, þar sem að Stjarnan var í 2. sætinu, en Tindastóll í 5.-8. Deildin í ár bara það jöfn að ekki neinn einasti leikur er nálægt því að vera gefins og Stólarnir alls ekki á þeim buxunum í kvöld að tapa. Að sama skapi má einnig hrósa liði Tindastóls fyrir nákvæmlega það.

Atkvæðamestir

Atkvæðamestur fyrir Stjörnuna í leiknum var Austin James Brodeur með 19 stig og 8 fráköst. Hjá Stólunum var það Shawn Glover sem dróg vagninn með 29 stigum og 8 fráköstum.

Hvað svo?

Næsti leikur Tindastóls er komandi fimmtudag 4. mars gegn ÍR í Hellinum, Stjarnan tekur svo á móti Val á föstudag.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)