Hattarmenn komu, sáu og sigruðu í Grindavík kvöld. Lokatölur 89-96 í bráðfjörugum leik.

Það var ljóst frá byrjun að nýliðar Hattar frá Egilsstöðum voru ákveðnir í að sækja sigurinn. Það var ákveðin þéttleika að finna í leik liðsins sem hélt sér út leikinn og skilaði að lokum góðum sigri á Grindvíkingum.

Liðin náðu aldrei almennilega að skilja andstæðing sinn eftir; mest náðu Grindvíkingar níu stiga forskoti en Hattarmenn tíu.

Lokakaflinn var spennandi en með baráttu, dugnaði og ástríðu innbyrtu þeir Hattarmenn sigurinn – sem var sanngjarn og verðskuldaður.

Michael Mallory og Bryan Anton Alberts voru atkvæðamestir í sókninni hjá Hetti og Dino Stipcic stýrði leik liðsins vel. Matej Karlovic lék vel en hann er að ná sér á strik eftir meiðsli – greinilega mjög góður leikmaður sem er ástríðufullur og gefur sig allan í leikinn. Annars var þetta liðsheildin sem skilaði þessum sigri í hús hjá Hetti, og haldi þeir áfram á þessari braut verða sigrarnir fleiri og fleiri.

Sóknarleikur Grindvíkinga hefur oft verið betri – þeir hittu á köflum mjög vel en það vantaði mun betra flæði og meira sjálfstraust í sóknirnar. Eftir því sem leið á leikinn varð þetta allt erfiðara fyrir þá, enda var varnarleikur liðsins afar slakur.

Lykilmenn eins og Kristinn Pálsson og Ólafur Ólafsson fundu taktinn engan veginn í þessum leik og munar um minna. Bakvarðarparið Dagur Kár Jónsson og Marshall Lance Nelson báru uppi sóknarleik Grindvíkinga og þeir Björgvin Hafþór Ríkharðsson og Kristófer Breki Gylfason börðust vel.

Tölfræði leiks

Viðtöl:

Sigurður Gunnar eftir sigur á sínum gömlu félögum “Getum unnið alla”

Daníel Guðni þjálfari Grindvíkinga eftir tapið gegn Hetti “Ekki boðlegur varnarleikur”

Umfjöllun, viðtöl / Svanur Snorrason

Mynd / Höttur FB