Fimmtándu umferð Dominos deildar kvenna lauk með einum leik í kvöld þegar Fjölnir tók á móti Breiðablik í Dalhúsum. Leikurinn var æsispennandi en lauk með naumum 80-77 sigri Fjölnis

Gangur leiksins

Það er óhætt að segja að erfitt hafi verið að slíta í sundur liðin í dag. Munurinn á liðunum var aldrei mikill en liðin skiptust átta sinnum á forystu og voru tíu sinnum í leiknum jöfn að stigum. Mesti munur á liðunum í dag kom um miðbik annars leikhluta þegar Breiðablik komst 12 stigum yfir en það stór yfir í stuttan tíma þar sem Fjölnir setti næstu sjö stig leiksins. Staðan í hálfleik var 42-39 fyrir Breiðablik.

Lítið mátti útaf bregða í seinni hálfleik og varð snemma ljóst að sigurinn gæti unnist með minnsta mun. Lokamínúturnar voru æsispennandi. Þegar tvær og hálf mínúta var eftir af leiknum jafnaði Sara Djassi leikinn með þriggja stiga skoti 77-77. Eftir það var spennustigið hátt og skiptust liðin á því að tapa boltanum eða taka léleg skot. Úr varð að Ariel Hearn setti sigurkörfuna fyrir Fjölni með 12 sekúndur eftir á klukkunni. Blikar náðu ekki að svara og niðurstaðan 80-77 sigur Fjölnis.

Atkvæðamest

Ariel Hearn er algjörlega mögnuð þessa dagana og átti enn eina draumaframmistöðuna auk þess að eiga sigurkörfuna. Hun endaði með 37 stig, 14 fráköst, 4 stoðsendingar og 56% skotnýtingu í leiknum. Hin 16 ára Emma Sóldís Svan átti einnig flottan leik og var með 14 stig og 7 fráköst.

Iva Georgieva var atkvæðamest hjá Blikum með 20 stig, 7 fráköst og 3 stoðsendingar. Jessica Kay var einnig öflug með 19 stig, 6 stoðsendingar og 5 stolna bolta.

Hvað næst?

Fjölnir er nú komið með 9 fingur á úrslitakeppnissæti eftir sigurinn en átta stig er í Skallagrím í 5. sæti. Breiðablik er áfram í 6. sæti einungis tvemiur stigum frá Skallagrím.

Næstkomandi miðvikudag mætast þessi sömu lið á nýjan leik í Smáranum og geta Blikar því hefnt tapsins þar.

Tölfræði leiksins.