KR og Valur mætast á morgun í grannaslag í Dominos deild kvenna. Gengi liðanna nokkuð ólíkt þetta tímabilið, þar sem að Valur er í fyrsta sætinu með 22 stig líkt og Keflavík á meðan að KR er í 7.-8. sætinu með 4 stig líkt og Snæfell.

Liðin heyja því ólíka baráttu þennan veturinn, en leikur morgundagsins gæti þó orðið hin besta skemmtun í ljósi þeirra úrslita sem urðu í síðustu umferð deildarinnar, þar sem að KR lagði topplið Keflavíkur á útivelli á meðan að Valur tapaði fyrir Breiðablik.

Samkvæmt fréttatilkynningu sem lesa má hér fyrir neðan mun bakhjarl KR, Alvotech, bjóða áhorfendum á leik morgundagsins. Þrátt fyrir það eru vegna samkomutakmarkana takmarkanir á því hversu margir mega vera á vellinum og eru áhorfendur beðnir um að tryggja sér miða í gegnum Stubb.

Fréttatilkynning:

Það er Reykjavíkurslagur framundan en á morgun laugardag mætast KR og Valur í Dominosdeild kvenna. KR vann góðan sigur í Keflavík í síðustu umferð og ljóst að liðið mun koma einbeitt til leiks í þennan nágrannaslag.

Okkar öflugu bakhjarlar í Alvotech ætla að bjóða frítt á leikinn og eiga þeir bestu þakkir fyrir. Samstarf Alvotech og KR Körfu er okkur gríðarlega mikilvægt og á Alvotech okkar bestu þakkir fyrir stuðninginn. Við minnum á að þó svo að frítt verði inn á leikinn, þá eru takmarkaðir miðar í boði og þurfa allir að skrá sig og ná í miða í gegnum Stubb, óháð aldri.

Leikur KR og Vals hefst klukkan 16:30, á morgun laugardag. ÁFRAM KR!