Stjarnan lagði heimamenn í Hetti í kvöld með minnsta mögulega mun, 93-94, í 13. umferð Dominos deildar karla. Eftir leikinn er Stjarnan í öðru sæti deildarinnar með 20 stig á meðan að Höttur er í 9.-11. sætinu með 8 stig líkt og Valur og Þór Akureyri.

Líkt og tölurnar gefa til kynna var leikur kvöldsins æsispennandi frá upphafi til enda, en í lokin var það karfa AJ Brodeur þegar 4 sekúndur voru eftir sem skildi liðin að. Höttur fékk þó fínt tækifæri til þess að stela sigrinum með flautukörfu, en Matej Karlovic brást bogalistin og fór því svo að Stjarnan vann.

Atkvæðamestur heimamanna í leik kvöldsins var Matej Karlovic með 27 stig, þá var Dino Stipcic nálægt þrefaldri tvennu með 12 stig, 8 fráköst og 10 stoðsendingar. Fyrir gestina úr Garðabæ var það Ægir Þór Steinarsson sem dróg vagninn með 23 stigum, 5 fráköstum og 11 stoðsendingum.

Höttur á næst leik 11. mars gegn ÍR í Breiðholti á meðan að Stjarnan mætir Þór Akureyri degi seinna heima í MGH.

Tölfræði leiks

Umfjöllun / Pétur Guðmundsson