Leikir Snæfells og Skallagríms eru ávallt hörku leikir þar sem baráttan einkennir liðin. Áhorfendur eru mættir til leiks og var það forsetinn sjálfur Herra Guðni Th. Jóhannesson sem var mættur til að fylgjast með slagnum.

Dómarar leiksins voru þeir Davíð Tómas Tómasson, Davíð K. Hreiðarsson og Sigurður Jónsson. Davíð Tómas var að dæmi sinn 1000 leik á vegum KKÍ á dögunum og er hann sá yngsti til að ná þeim merka áfanga, til hamingju með það.

Gangur leiksins

Leikurinn byrjaði af miklum krafti og voru heimastúlkur tilbúnar að leggja allt undir á móti sterku Skallagrímsliðinu. Fyrsti leikhluti endaði hnífjafn 17-17 og má segja að liðin hafi verið að verjast nokkuð vel í bland við slæmar ákvarðanir í sókninni. Vörnin var áfram sterkt í öðrum leikhluta og var leikurinn algjörlega stál í stál. 31-32 fyrir gestina í hálfleik.

Í byrjun síðari hálfleiks var eins og Skallagrímur ætlaði að valta yfir Snæfell, krafturinn og ákafinn var allur gestanna. Það þarf ekki nema að minna Snæfellskonur á það að mótherjinn er úr Borgarnesi til að fá ákafa og kraft á móti. Snæfell vann sig jafnt og þétt inn í leikinn aftur. Í fjórða leikhluta fengu Snæfell marga möguleika á því að komast yfir í leiknum en nýttu það ekki. Skallagrímur hélt fimm stiga mun lengi vel en þegar örfáar mínútur lifðu af leiknum voru heimakonur búnar að jafna leikinn og á vítalínunni. Þeim brást bogalistin full oft og náðu ekki að komast yfir. Snæfell fékk síðustu sóknina í leiknum í stöðunni 65-66 fyrir gestina. Haiden hristir af sér Sönju en klikkar á skotinu á olnboganum. Emese nær frákastinu og eftir klafs nær hún skotinu (einhverjir vildu meina að dómarar leiksins hefðu átt að grípa þar inn í og dæma villu í skotinu) en skotið klikkar og Skallagrímur nær frákastinu þegar um 4 sekúndur voru eftir af leiknum. Þær komast upp völlinn án þess að brotið sé á þeim og standa uppi sem sigurvegarar.

Þannig fór það

Ótrúlega svekkjandi tap fyrir Snæfell sem voru búnar að missa Kamile útaf meidda og Tinnu Guðrúnu með 5 villur (hún spilaði vörnina gríðarlega vel í leiknum og var sífellt ógn í sókninni). Dagný, 16 ára, kom inn á í lokinn og spilaði sína rullu vel. Snæfell gátu svo sannarlega kvittað fyrir tapið í síðustu umferð með sigri hérna en því miður fyrir þær þá tókst það ekki. Skallagrímskonur fara hins vegar úr fallegasta bæ Vesturlands glaðar í þetta sinn með sigur í farteskinu þó svo að þær hafi ekki átt sinn besta dag sem sést best á 3ja stiga skotnýtingu liðsins 2/22 og 19 töpuðum boltum. Þær hitta þó úr 10 fleiri vítum en Snæfell og þar eru dýrmætustu stigin. Frákastabaráttan var svakaleg Skallagrímskonur tóku 58 fráköst (18 sóknar) á móti 48 Snæfells.

Áfram veginn

Snæfell fær Val í heimsókn þann 3. mars og Skallagrímur fær Keflavík í heimsókn 28. febrúar.

Það er ljóst að verkefnin verða stór í næstu umferð fyrir Vesturlandsliðin.

Tölfræði leiks

Umfjöllun / Gunnlaugur Smárason