Valur lagði Hauka í kvöld í Origo Höllinni í Dominos deild kvenna, 79-64. Eftir leikinn eru Valskonur jafnar Keflavík að stigum í 1.-2. sæti deildarinnar með 16 stig á meðan að Haukar eru í 3. sætinu með 14 stig.

Gangur leiks

Það voru heimakonur í Val sem byrjuðu leik kvöldsins betur. Voru skrefinu á undan á upphafsmínútunum og leiddu með 3 stigum eftir fyrsta leikhlutann, 19-16. Undir lok fyrri hálfleiksins bæta Haukar þó vel í og ná að snúa taflinu sér í vil. Haukar með 9 stiga forystu þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 37-46.

Valur byrjar seinni hálfleikinn svo á 17-0 áhlaupi, þar sem að Haukar setja ekki stig á töfluna fyrr en eftir fimm mínútna leik. Þá forystu lét Valur ekki eftir, leiða með 10 stigum eftir þriðja leikhlutann, 63-53. í þeim fjórða gera þær svo vel í að halda forskotinu og vinna leikinn að lokum með 15 stigum, 79-64.

Það munar um minna

Valskonur voru án landsliðsmiðherjans Hildar Bjargar Kjartansdóttur í leik kvöldsins, en hún meiddist í síðasta leik gegn Skallagrím. Það munar um minna fyrir liðið, en Hildur hefur skilað 15 stigum, 10 fráköstum og 3 stoðsendingum að meðaltali í leik það sem af er vetri.

Tölfræðin lýgur ekki

Það voru mikil áhlaup í leik kvöldsins. Eins og nefnt var náðu heimakonur einkar sterkum 17-0 kafla í upphafi seinni hálfleiksins. Haukakonur áttu einnig sína spretti, sá stærsti aðeins styttri, 10-0 í öðrum leikhlutanum.

Kjarninn

Hvort um sig stilltu liðin upp fjórum A landsliðsleikmönnum og einum Bandaríkjamanni í byrjunarliðum sínum í kvöld. Fyrir leik einnig jöfn að stigum ásamt Keflavík í efsta sæti deildarinnar. Því deginum ljósara að um tvö af betri liðum deildarinnar var að ræða. Valsliðið þó aðeins betra, eins og kannski við var að búast, en með smá lukku hefðu Kaukar alveg geta tekið þennan.

Atkvæðamestar

Atkvæðamest fyrir Val í kvöld var Kiana Johnson með 27 stig, 12 fráköst, 7 stoðsendingar og 5 stolna bolta. Fyrir Hauka var það Alyesha Lovett sem dróg vagninn með 27 stigum, 14 fráköstum og 6 stoðsendingum.

Hvað svo?

Valur leikur næst þann 27. febrúar gegn KR heima í Origo Höllinni á meðan að Haukar heimsækja topplið Keflavíkur 3. mars.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Eygló Ottesen)