Valur lagði Keflavík í kvöld í 10. umferð Dominos deildar karla, 85-72. Keflavík þrátt fyrir tapið í efsta sæti deildarinnar með 16 stig á meðan að Valur er í 9. með 8 stig.

Gangur leiks

Heimamenn í Val mættu sprækir til leiks. Leikurinn nokkuð jafn á upphafsmínútunum, en Valur leiddi með 5 eftir fyrsta leikhluta, 21-16. Undir lok fyrri hálfleiksins skiptast liðin svo á snöggum áhlaupum, en forystan ennþá heimamanna þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 38-34.

Valsmenn byrjuðu seinni hálfleikinn einnig af krafti. Ná að byggja upp þægilega 11 stiga forystu í þriðja leikhlutanum. Staðan 58-47 fyrir lokaleikhlutann. Keflvíkingar reyndu hvað þeir gátu til þess að gera þetta að leik í fjórða leikhlutanum, en allt kom fyrir ekki. Niðurstaðan 13 stiga sigur Vals, 85-72.

Tölfræðin Lýgur Ekki

Valur skaut boltanum vel úr djúpinu í kvöld. Af 30 skotum þeirra fóru 13 niður, en það er 42% nýting. Hjá Keflavík var sagan önnur, þeir skutu 28 þriggja stiga skotum, en aðeins 6 vildu niður eða með 21% nýtingu.

Kjarninn

Sigurinn var gífurlega mikilvægur fyrir Val. Bæði hefur liðið átt í erfiðleikum með að vinna leiki það sem af er tímabili, sem og vegna þeirrar staðreyndar að rúmar tvær vikur eru í næsta leik. Fyrir Keflavík er tapið áhyggjuefni á annars frekar áhyggjulausum vetri þeirra hingað til. Annað tap þeirra í deildinni staðreynd. Úrslitin sannarlega vitni um að ekkert lið má eiga vondan dag í þessari jöfnu deild.

Atkvæðamestir

Sinisa Bilic ogPavel Ermolinski voru atkvæðamestir heimamanna í kvöld. Pavel með 18 stig, 6 fráköst, 5 stoðsendingar og 3 stolna bolta, Sinisa 20 stig og 12 fráköst. Fyrir gestina úr Keflavík var það Dominykas Milka sem dróg vagninn með 25 stigum og 8 fráköstum.

Hvað svo?

Nú eru bæði lið komin í nokkurra vikna frí vegna landsleikja. Bæði mæta aftur 28. febrúar, Keflavík fær nýliða Hattar í heimsókn á meðan að Valur heimsækir Grindavík.

Tölfræði leiks