Haukar lögðu Breiðablik í kvöld í Dominos deild kvenna, 60-70. Leikurinn sá fyrsti sem liðin leika eftir nokkurra vikna landsleikjahlé, en eftir hann eru Haukar í efri hluta deildarinnar með 12 stig á meðan að Breiðablik er öllu neðar með 4 stig.

Staðan í deildinni

Gangur leiks

Heimakonur í Breiðablik byrjuðu leik kvöldsins af krafti. Voru skrefinu á undan á upphafsmínútunum, en gestirnir ú Hafnarfirði voru þó fljótar að ná áttum. Munurinn eitt stig eftir fyrsta leikhlutann, 12-11. Undir lok fyrri hálfleiksins ná Haukar svo að byggja sér upp smá forystu, eru þægilegum 10 stigum yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik.

Í upphafi seinni hálfleiksins láta Haukar svo kné fylgja kviði. Fara með forystu sína mest í 18 stig í þriðja leikhlutanum. Blikar gera þó vel undir lok leikhlutans að missa leikinn ekki úr greipum sér. Forysta Hauka 11 stig fyrir lokaleikhlutann, 42-53. Í honum nær Breiðablik svo að koma muninum minnst niður í 3 stig á lokamínútunum. Lengra komast þær þó ekki, 10 stiga sigur Hauka niðurstaðan, 60-70

Munar um minna

Í leikmannahóð Blika í kvöld vantaði hina bandarísku Jessica Kay Loera, en hún mun hafa verið frá vegna meiðsla. Það munaði um minna fyrir þær þar sem að Jessica hefur skilað 18 stigum, 5 fráköstum og 5 stoðsendingum að meðaltali í leik í vetur. Samkvæmt heimildum er ekki ljóst hversu langt er í að hún spili aftur, en hún mun hafa snúið sig illa á ökkla í landsleikjahléinu.

Tölfræðin lýgur ekki

Haukar unnu frákastabaráttu kvöldsins með 46 á móti 37 fráköstum Breiðabliks. Mestur var munurinn í sóknarfráköstum, þar sem að Haukar taka 21 í leiknum á móti aðeins 8 hjá Breiðablik.

Kjarninn

Haukar eru án nokkurs vafa eitt af sterkari liðum deildarinnar, það sést á stöðu þeirra í töflunni og það sást í leik kvöldsins. Blikar áttu þó alveg möguleika, þrátt fyrir að vera spila án atkvæðamesta leikmanns síns í kvöld. Eins og kannski oft áður í vetur, eru þær að spila fína leiki, en ekki að ná í nein stig.

Atkvæðamestar

Atkvæðamest fyrir Breiðablik í kvöld var Birgit Ósk Snorradóttir með 15 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar. Fyrir gestina úr Hafnarfirði var það Þóra Kristín Jónsdóttir sem dróg vagninn með 17 stigum, 7 fráköstum og 3 stoðsendingum.

Hvað svo?

Breiðablik fær KR í heimsókn í Smárann þann 24. febrúar á meðan að Haukar taka á móti nýliðum Fjölnis í Ólafssal 21 febrúar.

Tölfræði leiks