Leikurinn fór rólega af stað sóknarlega en því meiri barátta var í liðunum varnarlega. Grindvíkingar áttu fyrstu stigin og Tindastóll komst ekki á blað fyrr en eftir rúmlega 3 mínútna leik þegar Tomsick minnkaði muninn í 2-4.  Gestirnir héldu áfram að vera á undan að skora og komust í 8-13 þegar rúmlega 3 mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta eftir þrist frá Björgvin Hafþór. Heimamenn náðu þó fljótlega aðeins betri takti og settu 11 stig þessar síðustu 3 mínútur og leiddu að leikhlutanum loknum með 19 stigum gegn 15 eftir frábæran þrist frá Axel.

Þeir bættu svo í og leiddu 31-18 eftir 12-3 sprett í upphafi annars leikhluta. Daníel tók leikhlé og gestirnir minnkuðu muninn fljótt, Óli Óla setti 5 stig í röð og Þorleifur bróðir hans bætti þristi við og staðan skyndilega orðin 33-27.  Heimamenn rönkuðu við sér og komu muninum aftur í 13 stig en gestirnir nöguðu muninn niður á vítalínunni og nýr erlendur leikmaður þeirra setti síðustu 6 stig hálfleiksins með þrist og 3 vítum í næstu sókn eftir að brotið var á honum í 3ja stiga skoti.  Staðan 44-40 í hálfleik og allt opið.
Bræðurnir Ólafs komu svo gestunum yfir 44-46 í upphafi síðari hálfleiks þar sem heimamenn virtust ekki með meðvitund.  Hittni liðanna var afleit en heimamenn náðu betri tökum á sínum leik og komust yfir um miðjan 3 leikhluta með þrist frá Pétri Rúnari 54-51.

Antanas Udras sem var kominn aftur í lið heimamanna eftir meiðsl á hendi bætti svo 4 stigum við og jók muninn og Stólar leiddu 63-53 fyrir lokaleikhlutann eftir að Tomsick hafði sett langan þrist á lokasekúndum þess þriðja.  Gestirnir minnkuðu muninn fljótlega í 5 stig en hittni liðanna hélt áfram að vera slæm og varnarbaráttan í fyrirrúmi sem oftast hefur verið heimamönnum í hag. 

Þeir náðu á endanum að rykkja svolítið frá gestunum og fremstur fór þar Jaka Brodnik sem setti 7 stig í röð á einni mínútu undir lokin og kom heimamönnum í vænlega stöðu 81-70 þegar einungis rétt rúm mínúta var eftir af leiknum.  Það reyndist duga heimamönnum þrátt fyrir hetjulega baráttu gestanna og niðurstaðan varð 7 stiga sigur 88-81.


Eins og áður sagði var hittni liðanna frekar slök í leiknum og þó sérstaklega gestanna sem settu einungis 35% skota sinna niður í heildina. Stólar hittu 45% og unnu að auki frákastabaráttuna þó naumt væri og áttu líka töluvert fleiri stoðsendingar en gestirnir þó oft virtist vanta upp á flæðið í sóknarleiknum.  Glover var öflugastur heimamanna eins og oft áður í vetur með 19 stig og 12 fráköst. Tomsick skoraði 22 stig en í öllu fleiri tilraunum og Jaka Brodnik var líka góður með 17 stig og 9 fráköst. 

Varnarleikur heimamanna var öflugur, ekki síst hjá Viðari og Pétri Rúnari og Stólar náðu einnig að halda Joonas Jarvelainen vel niðri og munar um minna.  Hjá gestunum var Marshall Lance Nelson að spila sinn fyrsta leik og var stigahæstur þeirra með 19 stig þó ekki sé hægt að segja að hann hafi leikið sérlega vel.

Bræðurnir Ólafur og Þorleifur áttu ágætis leik en Joonas Jarvaleinen átti erfitt uppdráttar þó hann næði að pota niður 14 stigum.  Heilt yfir var nokkur pirringur áberandi í liði gestanna, bekkurinn var kominn með aðvörun fljótlega og Daníel fékk T í upphafi 2 leikhluta sem reyndar virtist virka ágætlega því Grindavík fengu ekki fleiri villur í hálfleiknum þrátt fyrir töluverðan barning.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Væntanlegt)

Umfjöllun, myndir / Hjalti Árna