Hamarsmenn fengu ungu strákana hans Árna Þórs úr Hrunamannahreppi í heimsókn í Frystikistuna í gærkvöldi. Fyrir leik voru voru Hamar í öðru sæti með 8 stig en Hrunamenn í því áttunda með tvö stig. Hrunamenn mættu nokkuð lemstraðir til leiks því einn af þeirra máttarstólpum, Florijan Jovanov, var að glíma við smávægileg meiðsli og fékk því frí. 

Gangur leiks 

Hamarsmenn komu inn í leikinn af miklum krafti og settu stóru strákarnir þeirra, þeir Ruud Luttermann og Mike Phillips, tóninn með tveimur tröllatroðslum í upphafi. Stigamaskína þeirra Hrunamanna, Corey Taite, hélt sig til hlés til að byrja með á meðan Hamar skoruðu að vild og var staðan eftir fyrsta leikhluta 35-17 fyrir heimamönnum. 

Annar leikhluti var síðan bara alveg eins og sá fyrsti nema Corey Taite byrjaði að hjálpa Karlo Lebo og Hrunamönnum við það að skora. Á meðan keyrðu Hamar upp tempoið og Hrunamenn áttu hvorki svör né sentimetra gegn 7 manna róteringu Hamars og var staðan í hálfleik 74-47. 

Það var öllum ljóst á þessum tímapunkti hvernig leikurinn myndi enda og var seinni hálfleikur i í rauninni bara formsatriði. Liðin tóku snöggar sóknir, erlendir leikmenn fylltu í stattið og að lokum fengu yngri leikmenn að spreyta sig – allt eftir bókinni. Leikurinn endaði 132-92 en ef einhver hefði hvíslað því að þjálfarateymi Hamars í fjórða leikhluta að ekkert lið hefur skorað meira í einum leik í 1. deildinni en Breiðablik gerði undir stjórn Lárusar Jónssonar gegn ÍA árið 2018 (140 stig) hefðu þeir líklega látið vaða en enginn lét vita og því fór sem fór. 

Bestir á vellinum 

Byrjunarlið Hamars er nátturlega bara á allt öðrum stað en byrjunarlið Hrunamanna og þeir sýndu það. Ef einhver veit um betri leikmann en Jose Medina í 1. deildinni þá má viðkomandi endilega láta mig vita en hann endaði með 18 stig og 12 stoðsendingar. Þeir Mike (28 stig,11 fráköst) Ruud (30 stig, 9 fráköst) og Pálmi(20 stig, 5 fráköst, 5 stoðsendingar) voru svo annaðhvort stærri eða sterkari en 11 af 12 tólf leikmönnum Hrunamanna og áttu auðvelt með að ráðskast með þá inní teig. Ragnar Jósef leyfði þessum að njóta sín en setti aftur á móti 5 af sínum 6 skotum ofaní, þar af 4 þriggja stiga körfur. Steinar Snær (10 stig) og Ragnar Magni (9 stig) komu síðan flottir af bekknum og héldu uppi gæðum.

Í liði Hrunamanna var Karlo Lebo (38 stig, 11 fráköst) eini leikmaðurinn sem náði að halda í við byrjunarlið Hamars í vörn og sókn frá upphafi til enda en hann átti sinn langbesta leik á tímabilinu. Corey Taite endaði með 33 stig en eftir fyrsta leikhluta var hann bara kominn með 4 stig og svo virtist vera að Hamarsmenn ættu auðvelt með að halda honum i skefjum þegar á reyndi. Ungu strákarnir hafa átt betri daga en Eyþór Orri stóð uppúr með 10 stig og 6 fráköst. 

Hvað er framundan 

Hamar heimsækja nágranna sína í Selfossi nk. þriðjudag á meðan Hrunamenn fá Vestra í heimsókn á mánudaginn.

Tölfræði leiks

Umfjöllun, viðtöl / Tómas Steindórsson