KR-ingar gerðu góða ferð til Grindavíkur og lönduðu þar frekar öruggum sigri, 83-95. Aðeins einu sinni var jafnt – þegar leikurinn hófst – en KR-ingar skoruðu átta fyrstu stig leiksins og Grindvíkingar náðu aldrei að jafna metin né komast yfir.

KR-ingar náðu mest þrettán stiga forskoti í fyrri hálfleik og virtust hreinlega ætla að klára nánast leikinn fyrir leikhlé. Grindvíkingar voru ekki til í neitt slíkt – þeir rönkuðu við sér, fóru að spila betur og berjast meira, og náðu að minnka muninn í eitt stig.

Aðeins munaði þremur stigum á liðunum í hálfleik og líklega voru KR-ingar ekki sáttir með að missa muninn svona mikið niður.

KR-ingar voru ekki lengi að bæta í forskotið, en fljótlega í þriðja leikhluta var munurinn kominn í tíu stig og þrátt fyrir að munurinn yrði ekki mjög mikill voru Grindvíkingar aldrei neitt nálægt því að setja alvöru spennu í leikinn.

Góður tólf stiga sigur KR staðreynd og það er einnig staðreynd að það er mikið spunnið í þetta lið. Matthías Orri Sigurðarson var besti maður vallarins, gerði 22 stig, og leiddi lið sitt einfaldlega til sigurs. Ty Sabin hafði hægt um sig í fyrri hálfleik, en Grindvíkingar höfðu þá góðar gætur á kappanum. Það losnaði um hann í síðari háfleik og á frekar stuttum kafla þá sýndi hann hvers vegna hann er besti leikmaður deildarinnar – raðaði körfunum ofan í, og þegar hann fer í þennan ham þá er hann einfaldlega óstöðvandi. Ty var með 27 stig og flest þeirra komu í síðari hálfleik. Brandon Joseph Nazione átti góðan leik og þegar hann er kominn í toppform gæti hann allt eins verið leikmaður sem myndi gera gæfumuninn fyrir KR-inga; hann getur frákastað, varið skot og skorað og spilað fína vörn.

Grindvíkingar voru ágætir í þessum leik, en það vantaði alltaf eitthvað upp á að þeir kæmust almennilega inn í leikinn; um leið og munurinn var orðinn lítill misstu þeir KR-inga frá sér. Liðið var að reyna – leikmenn börðust og voru nokkuð duglegir í sóknarfráköstum, en þeim tókst aldrei að ná góðu flæði í sóknarleikinn – stöku sprettir hér og þar en ekki mikið meira. Þeir eiga væntanlega töluvert mikið inni.

Joonas Jarvelainen var mjög góður í fyrri hálfleik, skoraði þrettán stig og var virkilega sterkur í vörn og sókn. Í síðari hálfleik bar lítið á honum, en hefði hann spilað áfram eins vel og hann gerði í fyrri hálfleik er allt eins líklegt að leikurinn hefði orðið spennandi í lokin. Kristinn Pálsson var drjúgur, en það munaði mikið um að Eric Julian Wise var máttlaus og Grindvíkingar verða að fá meira frá honum.

Tölfræði leiks

Umfjöllun, viðtöl / Svanur Már Snorrason