Sara Rún Hinriksdóttir og Leicester Riders unnu rétt í þessu WBBL Cup í Bretlandi með sigri á Sevenoaks Suns, 67-78, en þetta mun vera í fyrsta skipti sem félagið vinnur titilinn.

Í fyrra voru það Durham Palastines sem þær unnu í úrslitaleik WBBL Throphy, sem er önnur bikarkeppni, en þá var Sara Rún valin verðmætasti leikmaður leiksins.

Riders hófu úrslitaleikinn í dag mun betur en mótherjarnir í Suns. Leiddu eftir fyrsta leikhluta með 11 stigum, 13-24. Undir lok fyrri hálfleiksins jafnast leikar þó aðeins og þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik er munurinn aðeins 4 stig, Riders í vil.

Í upphafi seinni hálfleiksins setja Sara Rún og Riders fótinn svo aftur á bensíngjöfina. Byggja upp þægilega 14 stiga forystu fyrir lokaleikhlutann, 46-60. Í honum gerðu þær svo nóg til að sigla að lokum nokkuð góðum 11 stiga sigur í höfn, 67-78

Sara Rún var á sínum stað í byrjunarliði Riders í dag og skilaði góðu framlagi. Á 25 mínútum spiluðum skilaði hún 10 stigum, 4 fráköstum, 4 stoðsendingum, stolnum bolta og vörðu skoti.

Tölfræði leiks