Njarðvík rétti úr kútnum í kvöld með því að skella ÍR á ipponi í Njarðtaksgryfjunni í síðasta leik deildarinnar fyrir landsleikjahlé. Gestirnir úr Breiðholti hittu líkast til á sinn versta skotleik í vetur og Njarðvíkingar voru búnir að stoppa í varnarlekann sem hrjáði þá síðustu leiki. Lokatölur reyndust 96-80 þar sem Kyle Johnson fór á kostum í liði Njarðvíkinga með 25 stig og 10 fráköst en Zvonko Buljan fyrrum liðsmaður Njarðvíkinga var stigahæstur hjá ÍR með 21 stig og 9 fráköst.

Gangur leiksins
Heimamenn í Njarðvík byrjuðu mun betur og leiddu 27-11 eftir fyrsta leikhluta þar sem Kyle Johnson gerði 9 stig í fyrsta leikhluta fyrir Njarðvík á meðan skotnýting gestanna var lítt til fagnaðar.


Í öðrum leikhluta náðu Njarðvíkingar upp 20 stiga forskoti en góður endasprettur hjá ÍR með Collin Pryor í broddi fylkingar sá til þess að munurinn var ekki nema 11 stig í leikhléi, 45-34. Logi, Kyle og Rodney allir með 11 stig hjá Njarðvík í hálfleik en Pryor með 10 hjá ÍR.
Góður lokakafli í fyrri hálfleik skilaði sér ekki nægilega sterkt inn í þann síðari hjá ÍR og Njarðvík vann þriðja leikhluta 19-14 og staðan því 64-48 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Þegar hér var komið til sögu var ÍR 1-15 í þristum og skaðinn í raun sekður. Fjórði leikhluti fór 32-32 og sigur Njarðvíkur reyndist 96-80 eins og áður greinir. Njarðvík var við stýrið frá upphafi til enda og þrátt fyrir nokkrar rispur hjá ÍR þá virtist lítil alvara vera þar á ferð og forskot heimamanna var því aldrei í hættu.

Maður leiksins
Kyle Johnson stimplaði sig vel inn í lið Njarðvíkur að þessu sinni með 25 stig og 10 fráköst og þá kom Mario Matasovic af bekknum með 20 stig. Johnson var betri en enginn í frákastabaráttunni og virðist kunna vel við sig í baráttunni við körfuna. Pryor var flottur hjá ÍR á báðum endum vallarins.

Nokkur atriði

  • Fyrir leik var haldin mínútu þögn til minningar um Láru Maríu Ingimundardóttur sem var dyggur stuðningsmaður UMFN og starfaði til áratuga við framkvæmdir heimaleikja Njarðvíkur. Af þessu tilefni léku Njarðvíkingar með sorgarbönd á búningum sínum til minningar um Láru.
  • Maciej Baginski er enn fjarverandi í liði Njarðvíkur sökum meiðsla en fróðlegt verður að sjá hvort hann nálgist það að verða tilbúinn eftir að landsleikjahléinu lýkur í lok febrúarmánaðar.
  • Danero Thomas lék aðeins tvær mínútur hjá ÍR í fyrri hálfleik eftir að hafa fengið snemma tvær fremur ódýrar villur. Hann komst fyrir vikið lítt í takt við síðari hálfleikinn en stórir póstar hjá ÍR voru á löngum köflum fremur afkastalitlir.

Nú eru bæði lið komin í hlé. Eftir pásuna þá halda Njarðvíkingar í Þorlákshöfn þann 28. febrúar en ÍR mætir KR í Reykjavíkurrimmu sama kvöld.

Tölfræði leiks
Myndasafn

Umfjöllun / Jón Björn Ólafsson