Snæfell og Keflavík áttust við í Stykkishólmi í kvöld eftir langt landsliðshlé. Leikurinn að sjálfsögðu í beinni útsendingu á Youtube rás SnæfellTV.

Á dögunum var Anna Soffía Lárusdóttir valin Íþróttamaður Snæfells 2020, óskum við henni innilega til hamingju með nafnbótina.

Það var greinilega lögð áhersla á skotæfingar í landsleikjahléinu og sýndu liðin allar sínar bestu hliðar í 1. leikhluta með rúmlega 60% skotnýtingu. Leikhlutinn endaði 28-31 fyrir gestina og liðin vel stemmd fyrir áframhaldið. Daniela Wallen og Emese Vida drógu vagninn í stigaskori liðanna.

Keflavík mætti leikstjórnendum Snæfells á fullum velli og náðu að þreyta heimstúlkur með góðri og aggressívri vörn. Þegar 2. leikhluti var hálfnaður voru allar sóknaraðgerðir Snæfells orðnar erfiðar og Keflavík gat keyrt hraðar upp völlinn. Á þessum kafla náðu gestirnir af Suðurnesjum að bæta í forskotið og var það komið í 12 stig þegar fjórar mínútur lifðu eftir af hálfleiknum. Síðustu fjórar mínúturnar voru upp og niður og skorað á víxl. Það verður að nefna algjörlega frábæran varnarleik Emilíu í fyrri hálfleiknum. Hún límdi sig á Haiden og komst sú síðarnefnda hvorki lönd né strönd.

Hálfleikstölur: Snæfell 41 – 54 Keflavík

  • Snæfell tók jafn mörg (12) sóknarfráköst og varnarfráköst (12) í hálfleiknum en nýtti það einungis með 8 stigum.
  • Keflavík skaut 53% úr 2ja og 3ja – Wallen með 11/12 í 2ja og Katla Rún 4/4 í 3ja!

Snæfell byrjuðu að spila hörku vörn í síðari hálfleiknum og héldu Keflavík frá körfunni í 3 mínútur. Það kom ekki að sök vegna þess að Snæfell nýtti illa góðan varnarkafla sinn í sókninni. Það var samt greinilega að Halldór og Gunnhildur hafa stappað stálinu í sínar konur og voru þær mun hreyfanlegri í vörninni. Leikurinn var í jafnvægi þangað til 4-5 mínútur voru liðnar af 3. leikhluta þá hertu gestirnir vörnina aftur og fengu auðveldari leið að körfunni. Körfubolti er stórskemmtileg íþrótt og áhlaupin koma og fara eins og sumarið, það má með sanni segja að 3. leikhlutinn hafi einkennst af áhlaupum. Keflavík náði 18 stiga forskoti en á tveimur mínútum voru Snæfell búnar að minnka það í 8 stig. Leikurinn því ennþá í „járnum“ fyrir loka leikhlutann.

Í 4. leikhluta voru gestirnir ávallt skrefinu á undan þó svo að Snæfell hafi átt nokkra fína kafla þá virtist vörn gestanna oft á tíðum vera þeim erfið. Snæfell hætti að fara inn á Emese sem var eins og einræðisherra í teignum í leiknum og var einnig að opna fyrir leikmenn fyrir utan þriggjastigalínuna. Keflavík gerði vel með því að þvinga Snæfell í erfiða stöður. Heimakonur geta hins vegar tekið mikið út úr leiknum, þetta er þeirra besta hittni í marga leiki, þær fengu fjölmörg stig úr teignum og slátruðu frákastabaráttunni. Stiga- og frákastahæst var Emese Vida með 22 stig og 18 fráköst, sannkölluð tröllatvenna. Haiden Palmer var einnig drjúg með 16 stig, 15 fráköst, 6 stoðsendingar og 4 stolna. Haiden hefur samt sem áður átt betri skotleiki og það er öruggt að hún fer ekki sátt frá leiknum með 5/20 í skotnýtingu.

Keflavík var alltaf skrefinu á undan og var stórleikur Daniela Wallen munurinn á liðunum, þegar þeim vantaði körfu þá var leitað til hennar og hún skilaði körfu í 65% tilvika sem er lygileg tölfræði ásamt því að taka tæplega (17) helming frákasta Keflavíkur. Frábær leikmaður sem smell passar í frábært Keflavíkurliðið.

Bráðskemmtilegur leikur hjá tveimur góðum liðum endaði með sigri Keflavíkur 79 – 91.

Úr blíðunni í Hólminum,

Tölfræði leiks

Umfjöllun / Gunnlaugur Smárason