Haukar hafa ráðið Jalen Jackson um að leika með liðinu á yfirstandandi tímabili í Dominos deild karla. Tilkynnir félagið þetta á samfélagsmiðlum fyrr í dag.

Jackson er 26 ára bakvörður/framherji sem leikið hefur í Rúmeníu, Finnlandi og Ísrael síðan hann kláraði háskólaferil sinn með Little Rock í Bandaríkjunum.

Fréttatilkynning:

Körfuknattleiksdeild Hauka hefur ráðið til sín Jalen Jackson til að fylla í skarð Earvin Morris sem því miður náði ekki að leika listir sínar með liðinu. Eins og fram hefur komið meiddist Morris á síðustu æfingu fyrir sinn fyrsta leik og ljóst að meiðslin voru þess eðlis að hann á ekki afturkvæmt á þessu tímabili.


Jalen Jackson er 26 ára vængmaður og kemur frá Little Rock skólanum í Arkansas. Hann hefur reynslu úr Evrópuboltanum og hefur spilaði í Rúmeníu, Finnlandi og Ísrael. Fyrir þessa leiktíð var hann búinn að semja við lið í Lúxemborg en eftir aðeins einn leik var mótinu slegið á frest, líkt og á Íslandi, sökum kórónuveirunnar. Í þessum eina leik í Lúxemborg skoraði Jackson 18 stig og tók 8 fráköst.

Í finnsku deildinni spilaði Jackson bæði fyrir Helsinki Seagulls sem og KTP-Basket. Hjá KTP var hann með 15,6 stig og rúmlega 6 fráköst. Að auki var hann annar í stolnum boltum og sjöundi í vörðum skotum. Hann stoppaði stutt við í Ísrael þar sem honum var skipt út fyrir hærri leikmann og samdi svo við Sparta í Lúxemborg síðasta sumar þar sem hann náði að spila einn leik eins og fram hefur komið. Í ljósi þess að tímabilið var sett á ís ákváðu forsvarsmenn Sparta að losa sína erlendu leikmenn undan samningi.
„Jackson kemur til með að koma jafnvægi á sóknarleikinn okkar þar sem hann getur leyst margar stöður á vellinum,“ sagði Israel Martin, þjálfari Hauka um komu Jalen Jackson til Hauka. Martin sagði jafnframt að þarna er liðið að fá leikmann sem skilur leikinn vel og spilar liðsbolta. „Hann er sterkur í því að finna opnanir án boltans og góður að keyra á kröfuna og á varnarendanum er hann öflugur og þá sér í lagi frá boltanum.“


Bragi Magnússon, formaður kkd. Hauka, var að vonum ánægður að búið væri að finna eftirmann Morris og sagði það vera gott að vera búinn að ná samningum við Jackson. „Það er gott að vera búinn að ná samningum við Jalen sem kemur vonandi til með að fylla upp í það skarð sem Earvin var ætlað. Við bindum miklar vonir til þess að Jalen nái að aðlagast liðinu fljótt og vel og styrki hópinn fyrir komandi átök.“