A landslið karla er þessa dagana í borginni Pristina í Kósovó þar sem liðið mun leika lokaleiki sína í þessum fasa undankeppni heimsmeistaramótsins 2023. Síðasta fimmtudag lék liðið mikilvægan leik gegn Slóvakíu. Í dag er komið að lokaleik mótsins sem er gegn Lúxemborg.

Ísland er nú þegar búið að tryggja sér sigur í riðlinum þar sem liðið hefur unnið alla leiki nema einn. Liðið hefur því ekki að neinu að keppa í dag nema stoltinu. Það er hinsvegar komin upp mjög snúin staða í riðlinum. Hin þrjú liðin í riðlinum eru jöfn að stigum og eru því að berjast um eitt laust sæti í næstu umferð undankeppninnar. Á sama tíma og Ísland mætir Lúxemborg mætast lið Kósóvó og Slóvakíu.

Vinni Lúxemborg Ísland mun liðið fylgja okkar mönnum áfram uppúr riðlinum. Vinni Ísland er hinn leikur riðilsins hreinn úrslitaleikur.

Síðast þegar liðin mættust var það í síðasta landsliðsglugga þegar liðin léku í búbblunni í Slóvakíu. Þar vann Ísland 90-76 þar sem Tryggvi Hlinason átti tröllaleik og endaði með 24 stig og 11 fráköst.

Leikmannahóp Íslands fyrir leikinn má finna hér. Í síðasta leik var það Hjálmar Stefánsson sem sat hjá og verður fróðlegt að sjá hver það verður þegar tólf manna leikmannahópurinn verður tilkynntur í morgunsárið.

Lúxemborg unnu sannfærandi sigur á heimamönnum í Kósóvó í síðustu umferð og mikill uppgangur á liðinu. Andstæðingar dagsins eru því sýnd veiði en ekki gefin.

Leikurinn hefst kl 15:00 og verður í beinni útsendingu á Rúv. Útsending hefst kl 14:50.

Karfan mun fjalla um leikinn af fremsta megni í dag og fylgja liðinu eftir út landsliðsgluggan.