Íslandsmeistarar Vals tóku á móti Fjölni í fyrsta leik Dominos deildarinnar eftir langt landsleikjahlé. Fjölnir var fyrir leikinn í efsta sæti deildarinnar ásamt Keflavík en Valsarar tveimur stigum á eftir í þriðja sæti.

Gangur leiksins:

Nokkuð jafnræði var með liðunum framan af leik og var staðan til að mynda í hálfleik 36-31 fyrir Val. Allt annað var uppá teningnum í seinni hálfleik.

Valur stakk af í þriðja leikhluta og kláruðu leikinn snemma í hálfleiknum. Valsarar héldu Fjölni í 26 stigum í öllum seinni hálfleik og náðu mest 19 stiga forystu. Lokastaðan 74-57 fyrir Val.

Atkvæðamest:

Hildur Björg Kjartansdóttir átti stórleik í liði Vals með 28 stig, 13 fráköst og tvær stoðsendingar. Þá var Kiana Johnson aftur í liði Vals eftir meiðsli síðustu umferða. Hún endaði með 14 stig og 10 stoðsendingar.

Hjá Fjölni var Ariel Hearn með 27 stig og 12 fráköst. Þá var Lina Pikciute með 7 stig og 15 fráköst.

Hvað næst?

Tap Fjölnis lauk þriggja leikja sigurhrinu liðsins en nýliðarnir sitja í fjórða sæti. Næst mætir liðið Haukum í Ólafssal næstkomandi sunnudag.

Valsarar hafa nú unnið tvo leiki í röð og þennan ansi örugglega. Liðið er í öðru sæti deildarinnar með 12 stig. Næst ferðast liðið í Borgarnes á sunnudag og mætir heimakonum í Skallagrím.

Myndasafn

Tölfræði leiksins