Langlífasta þrætuepli körfuboltahreyfingarinnar er líklega það hvert vægi erlendra atvinnumanna eigi að vera í boltanum. 

Í sem stystu máli virðist sem pólarnir séu í megindráttum tveir. Annars vegar félög á höfuðborgarsvæðinu sem vilja færri erlenda atvinnumenn. Þau félög eiga auðveldast með að semja við íslenska leikmenn og eru með fjölmenna yngri flokka sem skapar tækifæri fyrir í meistaraflokka á endanum. Á hinum pólnum eru oft landsbyggðarfélög sem eiga erfiðara um vik að semja við íslenska leikmenn en lið á höfuðborgarsvæðinu og vilja hafa gott aðgengi að sem flestum erlendum atvinnumönnum til að vera samkeppnishæfari. 

Staðan er sú að vægi erlendra atvinnumanna hefur aukist stöðugt síðustu ár. Það er varhugaverð þróun af mörgum ástæðum:

  1. Umfang atvinnumennsku skerðir tækifæra ungra og efnilegra. Ef meiri hluti leikmínútna er í höndum atvinnumanna þá fær okkar unga fólk ekki tækifæri til að þroska sinn leik. Ungir leikmenn þurfa að fá tækifæri til að þroskast og eflast með leik í úrvalsdeild.
  2. Finna þarf leiðir til að draga úr hvötum til þess að reisa sér fjárhagslegan hurðarás um öxl.Tekjur félaganna eru ekki miklar, engir möguleikar til að fá tekjur af því að selja leikmenn. Má hafa áhyggjur af því að félög komi sködduð út úr því fjáraustri sem viðgengst. 
  3. Liðin eru að stórum hluta fjármögnuð með opinberu fé. Því er áhyggjuefni þegar þau skortir samfélagslega tengingu eins og gerist ef nánast óhugsandi er að byggja upp lið sem nær árangri á vel heppnaðri uppbyggingu úr yngri flokkum. 

Í villta vestrið

Frá því 4+1 reglan var afnumin fyrir nokkrum árum hefur fjöldi erlendra atvinnumanna í  úrvalsdeild karla stöðugt aukist og er nú svo komið að hátt í 50 erlendir atvinnumenn hafa verið kynntir þar til leiks í deildinni. Við fórum úr talsverðum takmörkunum í nánast engar takmarkanir í einu vetfangi. Spyrja má sig hvort það hafi verið mistök að afnema nánast allar takmarkanir og hvort hefði átt að útfæra einhverjar takmarkanir þegar horfið var frá 4+1.

Afnám takmarkana leiðir til færri mínútna heimamanna

Staðan í dag er sú að í karladeildinni er ekkert lið samkeppnishæft nema leika með áður óþekktan fjölda atvinnumanna. Allt niður í 1-2 Íslendingur hafa vægi í leik sinna liða. Það er í mínum huga óæskilegt en það er líka skiljanlegt því hvatar liða til að bæta við sterkari leikmönnum eru miklir. 

Þetta kemur samt ekki á óvart. Engar takmarkanir munu leiða til þessa enda hefur sama verið staðfest með rannsóknum í öðrum deildum og greinum. 

Nýleg rannsókn sem var gerð á tyrknesku körfuboltadeildinni sýnir að tveimur árum eftir að reglu um að tveir leikmenn uppaldir innan sambandsins þyrftu að vera inni á í hverju liði var aflétt léku heimamenn umtalsvert færri mínútur og létu minna til sín taka en áður. Athyglisverðast, þó ekki óvæntast, var að heimamenn skiptu miklu minna máli fyrir lið sín þegar þeir voru inni á vellinum en áður. Þeir voru fyrst og fremst inni á til að hvíla hina erlendu og nýta villur sínar með taktískum hætti. Þeir voru semsagt viljandi í algjörum aukahlutverkum. Ekki kæmi á óvart ef niðurstaðan yrði svipuð ef við gerðum sams konar rannsókn.

Í dag elta liðin okkar hvert annað. Í stað þess að það þyki mikið að vera með þrjá erlenda leikmenn þá þykir það lítið í dag. Línan færist stöðugt lengra og er líkleg í að færast enn lengra á næsta ári. Þannig virkar einfaldlega leikjafræðin og hvatarnir. Við gætum endað með deild þar sem allir eru með einum fleiri erlendan atvinnumann en lið ræður við, til að mæta því sem önnur lið hafa gert. Allir að elta næsta lið. Við erum því verulegri hættu á því að vera innan tíðar með deild sem nánast eingöngu er skipuð erlendum atvinnumönnum.

Ég held það sé ekki spennandi framtíðarsýn. Hún er ekki fjárhagslega fýsileg fyrir félögin, hún er ekki góð fyrir þróun körfubolta á Íslandi eða fyrir þróun körfuboltans innan okkar samfélags. 

Í okkar starfi er samfélagsleg tenging mikilvæg af fjölmörgum ástæðum. Auk þess staðfesta fjölmargar rannsóknir sýna að árangur landsliða líður fyrir lítið vægi leikmanna í keppni í heimalandinu. Það að leika með betri leikmönnum en vera í algjöru aukahlutverki geri nefnilega engum gott..

Er samfélagslegur stuðningur fyrir þessu?

Við vitum að hið opinbera styður vel við íslensk íþróttafélög. Félögin njóta fjárhagslegs stuðnings, aðstaða er rekin af sveitarfélögum og almennt er hið opinbera íslensku æskulýðs- og íþróttastarfi nauðsynlegt og mikilvægt bakland. 

Velta má fyrir sér hvort stjórnendur íslenskra sveitarfélaga hafa áhuga á að reka atvinnumannadeildir, eða einhvers konar hálf-atvinnumannadeildir fyrir erlenda körfuboltaverkamenn til langs tíma. Er ekki forsenda stuðnings sveitarfélaga að starfið sé farvegur fyrir ungt íþróttafólk sem gæti einn daginn dregið vagninn? 

Ýmsir möguleikar til takmörkunar mögulegir

Oft er nefnt að takmarkanir á fjölda leikmanna sem leika hér og eru innan EES svæðisins séu ómögulegar. Svo er ekki. Í mörgum Evrópulöndum eru reglur um lágmarksfjölda leikmanna sem eru aldir upp innan viðkomandi sambands. Oft er miðað við ákveðið hlutfall uppalinna (e. homegrown) leikmanna, það er að leikmenn hafi verið innan sambandsins a.m.k. 3 tímabil á aldursbilinu 16-21 árs. Við getum til dæmis nefnt að í Póllandi er krafa um tvo uppalda inni á vellinum í einu og þrjá í Noregi. Önnur lönd gera kröfu um lágmarksfjölda uppalda í leikmannahópnum í stað þess að miðað við þá sem eru inni á hverju sinni. Slíkt viðgengst ekki einungis innan körfuboltans heldur einnig í öðrum greinum.

Það er hægt að að takmarka fjölda erlendra leikmanna í okkar deildum ef vilji er til þess. Gott væri ef KKÍ kannaði þá valkosti sem standa til boða til að draga úr vægi erlendra leikmanna í deildinni. Frábært væri að fara í slíka vinnu nú þannig að niðurstaða könnunar verði undanfari markvissrar umræðu á KKÍ þinginu nú í mars.

Getum ef við viljum
Mér þykir eðlilegt að það sé einhver trygging fyrir því að ungir leikmenn hafi vægi í deildinni og jafnframt tækifæri til að þroskast. Ég trúi því að slíkt sé mikilvægt fyrir starfið og viðgang íþróttarinnar til framtíðar. 

Ég skil áhyggjur landsbyggðarliða af stöðu sinni ef miklar takmarkanir eru settar á komu erlendra leikmanna eins og í 4+1 regluverkinu áður. 

Ég trúi að það sé einhver millivegur sem rétt sé að feta sem er alls ekki að vera með nánast engar takmarkanir eins og staðan er í dag. Það væri til dæmis hægt með kröfu um 2 eða 3 uppalda leikmenn inni á í hverju liði.

Við viljum öll körfubolta sem öflugastan á Íslandi til framtíðar. Það gerist ekki með stöðugt aukinni hlutdeild atvinnumanna í okkar liðum.

Ef við viljum breyta þessu þá getum við það. 


Björgvin Ingi Ólafsson
Formaður barna- og unglingaráðs körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar