Hér að neðan má sjá einkunnir leikmanna íslenska liðsins úr leiknum gegn Slóvakíu. Leikmönnum eru gefnar einkunnir útfrá tölfræði, væntingum til þeirra miðað við hlutverk og spilatíma og líka þáttum sem sjást ekki endilega í tölfræðiskýrslunni.

Tölfræði leiksins

Hörður Axel Vilhjálmsson – 6
Hörður Axel hefur oft verið meira afgerandi en í dag. Hann stýrði þó leik liðsins vel og var flottur varnarmegin að venju.

Elvar Már Friðriksson – 8
Frábær leikur hjá Elvari fyrir utan þriggja stiga nýtinguna. 16 stig og 10 stoðsendingar uppskeran hjá Elvari sem er alltaf að finna sig betur og betur innan raða landsliðsins.

Sigtryggur Arnar Björnsson – 7
Arnar er alltaf hálfgerður örbylgjuofn. Snögghitnar og henti upp níu þriggja stiga skotum í leiknum en fjögur þeirra fóru niður. Flott nýting hjá Arnari sem stóð fyrir sínu í dag.

Jón Axel Guðmundsson – 9 – Maður leiksins
Jón Axel var frábær í leiknum í dag. Eftir rólega byrjun skoraði hann að vild og var líka duglegur að finna félaga sína. 29 stig, 5 stoðsendingar og 6 fráköst uppskeran með fína nýtingu. Skilaði líka góðu starfi varnarlega í framherjastöðunni.

Tryggvi Snær Hlinason – 8
Stór ástæða þess að Ísland komst á flug í þriðja leikhluta var að þrátt fyrir villuvandræði Tryggva þá var hann löngu búinn að loka teignum. Slóvakarnir þorðu varla þangað inn þegar Tryggvi var inni á vellinum og sóknarlega tók hann mikið til sín. 17 stig og 14 fráköst frá Bárðdælingnum.

Kári Jónsson – 7
Kári setti þrjá þrista í sjö tilraunum og skilaði sínu hlutverki vel. Manni líður alltaf vel þegar Kári er að munda vinstri höndina.

Ólafur Ólafsson – 6
Ekki factor sóknarlega en mikilvægur hlekkur í liðinu þrátt fyrir það. Varnarlega flottur eins og venjulega og stal þremur boltum.

Tómas Þórður Hilmarsson – 6
Fyllir miðherjastöðuna þegar að Tryggvi er ekki inni á vellinum og gerði ágætlega þrátt fyrir að þurfa að spila við sér mun hærri leikmenn.

Ragnar Nathanaelsson – 7
Hefur ekki verið í stóru hlutverki undanfarið hjá landsliðinu en kom flottur inn í dag og át nokkrar mínútur með Tryggva í villuvandræðum. 4 fráköst og varið skot.

Gunnar Ólafsson – 6
Fín orka í Gunnari sem þó voru nokkuð mislagðar hendur í kringum körfuna.

Styrmir Snær Þrastarson – Spilaði ekki
Kristinn Pálsson – Spilaði ekki