Arnar Guðjóns var léttur eftir sigur sinna manna á ÍR í Dominos deildinni í kvöld:

Ertu sæmilega sprækur eftir þennan?

Bara gott að vinna…ÍR-ingar eru erfiðir!

Já, þeir eru erfiðir…þeir eru náttúrulega frábærlega mannaðir…

…hrikalega sterkt lið…hrikalega! Langir og allir geta skotið…mjög erfiðir..

Akkúrat, nú ertu að þjálfa Stjörnuna en langar samt að fá þína sýn á ÍR-ingana…ég sé fyrir mér að ef ÍR-ingarnir ná að stilla sig betur saman, kannski ekki síst varnarlega, þá verða þeir alveg rosalega hættulegir…

Mér fannst þeir á köflum bara gera mjög vel varnarlega, þeir eru langir og taka mikið svæði, mér finnst þeir bara gríðarlega gott lið, ég er mjög feginn að hafa unnið.

Jájá, akkúrat. Þeir voru náttúrlega að stela einhverjum boltum í svæðinu og gera ykkur svolítið erfitt fyrir á köflum þar…

…ég held að þeir hafi stolið fleiri boltum í maður á mann-vörninni samt! Það er líka ekkert lið í deildinni sem er að stela jafnmörgum boltum. Þeir voru með 12 í dag, eru með 10 að meðaltali í leik. Þeir eru með marga gaura sem eru með rosalega góðar hendur. Við vorum hræddir við þetta og vorum meðvitaðir um þetta, en það fór nú eiginlega verr en við ætluðum samt sem áður…

Einmitt. Þetta var heldur enginn toppleikur hjá ykkur í kvöld…

Nei, mér fannst við ekki nægilega góðir…ég er bara feginn að hafa unnið…

Hvað var það helsta sem þú hefðir viljað sjá betra hjá ykkur?

Það eru þessir töpuðu boltar…og svo er eitt í þessu og það er að ÍR-ingar spila aðeins öðruvísi en mörg önnur lið og undirbúningurinn hjá mér greinilega ekki nægilega góður því þeir fengu of mikið af auðveldum körfum og það er mér að kenna.

Já ég skil, þú ert t.d. að tala um að Collin Pryor var ítrekað svo gott sem galopinn undir körfunni og fékk auðveldar körfur og fleira í þeim dúr…

Já. Það er bara mér að kenna en ekki leikmönnum.

Það er víst enginn fullkominn…! En þetta var allaveganna 2 stig og kannski ekki ástæða til að ræða það mikið meira. Það er svo KR í Vesturbænum næst, síðasti leikur fyrir hlé. Það er aldrei auðvelt að fara þangað…?

Nei, það er ekkert auðvelt. Það er ekkert auðvelt í þessari deild, það er skemmtilegt! Það eru bara 12 lið sem geta unnið leiki í þessari deild gegn hverjum sem er, það er búið að sýna sig. Það eru kannski helst Keflvíkingar sem standa svolítið upp úr en restin er bara helvítis pakki sko!

Nákvæmlega! Þetta er bara hrikalega skemmtileg deild og hefur aldrei verið skemmtilegri held ég, ertu sammála mér um það?

Nja, menn segja alltaf að deildin hafi aldrei verið betri og aldrei verið skemmtilegri! Einhvers staðar stoppum við er það ekki? Við verðum aldrei eins og NBA held ég! 

Það virðist ætla að enda með því…!

En jújú, þetta er mjög skemmilegt og eins og ég hef sagt áður þá er þessi deild einstök. Hún er einstök á þann hátt að liðin eru ótrúlega jöfn frá 1-12. Það geta öll lið unnið hvert annað og það er ekki víða þannig í körfubolta í Evrópu að svo sé. 

Akkúrat, og ekkert nema gott um það að segja…og þetta er hrikalega spennandi…

Jájá, heldur betur!

Sagði Arnar, og fallegt hjá honum að reyna að draga örlítið úr spennunni hjá undirrituðum enda stutt í erfiða og langa pásu í körfunni hér heima.

Viðtal / Kári Viðarsson