Heil umferð, eða fjórir leikir, fóru fram í 1. deild karla í kvöld.

Á Álftanesi tóku heimamenn á móti ósigruðum Hamarsmönnum frá Hveragerði. Gestirnir héldu áfram góðri byrjun sinni í deildinni og unnu níu stiga útisigur, 83-92. Eftir sigurinn tróna Hvergerðingar á toppi deildarinnar með fullt hús stiga.

Lengsta ferðalagið í íslenskum körfubolta þurfti til að Sindramenn kæmust frá Hornafirði á áfangastað, en þeir mættu Vestramönnum á Ísafirði. Ferðin virðist ekki hafa setið í gestunum, því þeir fóru með öruggan sextán stiga sigur af hólmi, 82-98.

Í Borgarnesi tók Skallagrímur á móti Selfossi, og lauk leik með öruggum sigri Skallagríms, 88-64.

Loks tók Breiðablik á móti Fjölni í Smáranum. Niðurstaðan var öruggur sigur heimamanna, 106-89.