Stjörnumenn tóku á móti Hetti í Domino’s deild karla í kvöld, í fyrsta leik liðanna eftir 100 daga hlé. Síðast lék Stjarnan við Val í fyrstu umferð deildarinnar þann 2. október, en Höttur hafði beðið einum degi lengur eftir sínum öðrum leik, þeir mættu Grindavík 1. október.

Gestirnir að austan byrjuðu leikinn talsvert betur og höfðu átta stiga forskot um miðbik fyrsta leikhluta. Michael Mallory og Sigurður Gunnar Þorsteinsson fóru mikinn fyrir gestina í fyrsta leikhluta, og virtust Garðbæingar hafa fá svör við þeirra leik. Í upphafi annars leikhluta náðu gestirnir níu stiga forskoti, 22-31, en eftir það sneru Stjörnumenn blaðinu við, og þó að Hattarmenn hafi haft þriggja stiga forskot í hálfleik, 39-42, þá hófu Stjörnumenn seinni hálfleik á 12-0 áhlaupi, sem virtist slá gestina algerlega út af laginu. Stjörnumenn áttu ekki í vandræðum með gestina eftir það, og unnu að lokum afar sannfærandi 27 stiga sigur, 97-70.

Af hverju vann Stjarnan?

Stjörnumenn komu mjög vel stemmdir til leiks í seinni hálfleik og nýttu breiddina í sínum hóp vel, á meðan gestirnir mættu ekki með fullskipaðan hóp, auk þess sem þeir misstu Sigmar Hákonarson meiddan af velli strax í fyrsta leikhluta. Þreytan sást vel í liði Hattar í seinni hálfleik og það nýttu Garðbæingar sér.

Lykilmaðurinn

Margir Stjörnumenn áttu góðan leik, en Ægir Þór Steinarsson og Hlynur Bæringsson settu tóninn í upphafi seinni hálfleiks með frábærum varnarleik. Ægir var stigahæstur heimamanna með 15 stig, en Alexander Lindqvist kom þar næstur með 14 stig. Í liði gestanna byrjaði Michael Mallory vel, en það dró af honum þegar á leið. Sigurður Gunnar Þorsteinsson lék líka vel, þrátt fyrir að hafa farið úr lið á fingri í seinni hálfleik.

Næst

Stjörnumenn eru með fullt hús stiga að loknum tveimur leikjum, og mæta Þórsurum á Akureyri næstkomandi sunnudag, 17. janúar fyrir norðan. Höttur taka á sama tíma á móti ÍR á Egilsstöðum.

Tölfræði leiks