Vesturlandsslagurinn í Dominos deild kvenna fór fram í dag þegar Skallagrímur tók á móti Snæfell.

Ljóst var frá upphafi leiks að hvorugt liðið ætlaði að gefa neitt ókeypis í leiknum. Mjög lítill munur var á liðunum framan af fyrri hálfleik en í seinni hluta annars leikhluta náði Skallagrímur að keyra hraðan upp og seig framúr. Liðið leiddi með 14 stigum í hálfleik.

Hjá Snæfell var Haiden Palmer allt í öllu og stjórnaði hljómsveit og kór. Á sama tíma lenti Emese Vida snemma i villuvandræðum en hún batt vörn Snæfels saman. Það er ekki hægt annað en að nefna innkomu hinnar ungu Tinnu Guðrúnu Alexandersdóttur hjá Snæfell, hún var óhrædd að koma sér á körfuna og spilaði fínan maður á mann varnarleik. Í liði Borgnesinga var Keira Robinson að vanda óstöðvandi er hún komst á ferðina og Sanja Orazovic gerði Hólmurum erfitt fyrir.

Snæfell gafst aldrei upp og náði að minnka muninn mest í eitt stig í fjórða leikhluta. Skallagrímur gerði vel að standast öll áhlaup að lokum og sigra leikinn 85-80. Hólmarar höfðu misst bæði Haiden Palmer og Emese Vida útaf með fimm villur á síðustu mínútunni og lokatilraun til að sækja sigurinn því veik.

Skallagrímur er á toppi deildarinnar með sigrinum með þrjá sigra, Snæfell situr í næstneðsta sæti með einn sigur eftir fjóra leiki.

Tölfræði leiksins

Leikinn má horfa í heild sinni hér að neðan en Kvikmyndafélag Borgarfjarðar sá um þessa flottu útsendingu.