Þrátt fyrir að ferðalag Skagfirðinga til Egilsstaða hafa ekki gengið áfallalaust fyrir sig má segja að liðið hafi sótt tvö stig í höfuðstað Austurlands án nokkurra áfalla. Liðin mættust í 5. umferð Dominos deildarinnar í kvöld en leikurinn sem átti upphaflega að fara fram í gærkvöldi var tvífrestað vegna færðar.

Í kvöld var leiknum frestað um 45 mínútur þar sem rúta Tindastóls fór útaf veginum við Mývatn. Þar hafði skilin milli vegar og umhverfis verið óljós vegna snjósins sem hafði fennt hressilega yfir skautasvell sem var á veginum.

Að lokum fór leikurinn fram í MVA höllinni á Egilsstöðum. Þar sem skilin milli bæjar og snjósins eru einnig óljós vegna gríðarlegrar snjókomu.

Gangur leiksins:

Segja má að ferðalagið hafi setið aðeins í Skagfirðingum rétt í upphafi. Hattarmenn náðu forystu í fyrsta leikhluta og leiddi að honum loknum 29-20. Í öðrum leikhluta hafði vel smurt nestið úr Skaffó greinilega skilað sér í kroppa Tindastólsmanna sem hófu að traðka á Hattarmönnum líkt og íslenskir ferðamenn tröðkuðu harkalega á göngustígnum að Stuðlagili í sumar.

Skagfirðingar settu fyrstu ellefu stig leikhlutans og voru skyndilega komnir yfir. Íslenska vetrarfærðin hafði greinilega kveikt rækilega í Texasbúanum Shawn Glover sem var óstöðvandi í fyrri hálfleik en hann var með 18 af 22 stigum sínum þá. Staðan í hálfleik var 40-52 og skilin milli liðanna að verða mun meiri en milli vegar og umhverfis við Mývatn.

Héraðsbúar höfðu reynt að beisla orku Lagarfljótsormsins og nýttu hana til að mæta tvíefldir til leiks í seinni hálfleiks. Að lokum varð orkan ekki næg til að búa til almennilegt áhlaup enda engin séð Orminn sjálfan síðustu misseri.

Að lokum voru það Skagfirðingar með nestiskörfuna úr Skaffó sem unnu ansi öruggan sigur 86-103 á Hetti.

Atkvæðamestir:

Hjá Tindastól var Antanas Udras sem átti sinn besta leik á landinu enda notast Litháar mikið við vindorku og endaði með 23 stig og 10 fráköst. Nick Tomsick var með 23 stig, 5 fráköst og 7 stoðsendingar.

Michael Malroy var öflugur hjá Hetti með 23 stig og 7. stoðsendingar. Sigurður Gunnar Þorsteinsson var einnig sterkur með 18 stig og 11 fráköst.

Hvað næst:

Ljóst er að fregnir af kaupum Kaupfélagsins á Metro hafa lagst vel í Skagfirðinga sem komust loks á sigurbraut eftir tvö töp á heimavelli í röð. Þeir gerðu vel að vinna leik kvöldsins örugglega eftir ævintýri dagsins. Vel er við hæfi að liðið fái sitt stysta ferðalag í næstu umferð þegar liðið heimsækir Akureyri. Engin má þó fagna of snemma enda vitum við aldrei hvar við höfum Öxnadalsheiðina á þessum tíma.

Egilsstaðabúar þurfa hinsvegar að snúa sér frá því að nýta orku Lagarfljótormsins sem er tilbúningur líkt og persónan sjálf. Snúa sér þess í stað að óbeislaðri orku Viðars Hafsteinssonar þjálfara sem gæti auðveldlega knúið áfram Kárahnjúkavirkjun á góðum degi. Liðið getur einfaldlega gert betur en þetta en því miður virðist vanta nægilega trú. Viðar þarf að rífa menn úr VÖK böðunum svo þeir leikmenn séu ekki of mjúkir í kroppnum þegar liðið ferðast til Reykjavíkur og mæta Vatnsmýrardrengjum séra Friðriks næstkomandi fimmtudag.