Tindastóll tók á móti Njarðvík í fyrstu deild kvenna í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í dag. Leikurinn átti að fara fram í gær en var frestað vegna veðurs.


Njarðvíkingar hófu leikinn með því að spila öfluga svæðispressu gegn heimastúlkum og það skilaði þeim 5-11 forystu eftir rúmlega tveggja mínútna leik. Heimastúlkur náðu að spila sig upp völlinn betur en öflug vörn gestanna gerði þeim erfitt fyrir að setja upp sínar sóknir og Njarðvík leiddi eftir fyrsta fjórðung 10-18. Vandræði heimastúlkna í sókninni héldu áfram í öðrum fjórðung og Njarðvíkurstúlkur gengu á lagið og Chelsea Jennings skoraði grimmt. Um miðjan fjórðunginn var forysta Njarðvíkinga orðin 16 stig og þær litu ekki til baka eftir það heldur bættu í. Staðan í hálfleik 19-41 eftir vel útfærða lokasókn gestanna þar sem Þuríður setti niður sniðskot þegar flautan gall.


Vandræði heimastúlkna héldu áfram eftir hlé og skoruðu þær einungis 8 stig í þriðja leikhluta. Njarðvik var að spila góða ´Box&1´ svæðisvörn sem ruglaði sóknarleik heimastúlkna mikið og þau skot sem þær þó náðu voru ekki að detta. Njarðvík hélt því áfram að bæta í og voru komnar í 27-61 forystu að loknum þriðja leikhluta og nánast formsatriði að klára leikinn. Það gerðu gestirnir svo með 11-2 kafla í upphafi lokaleikhlutans og Stólastúlkur skoruðu ekki körfu úr opnum leik fyrr en tæpar 4 mínútur voru eftir af leiknum. Lokatölur 39-77 og miklir yfirburðir hjá gestunum.
Hjá Njarðvík voru þær Vilborg og Chelsea að spila frábærlega og skiluðu báðar 20 stigum og Chelsea reif að auki niður 8 fráköst. Hún hafði lítið spilað síðan síðastliðið vor en lofar góðu fyrir framhaldið hjá Njarðvík. Þá var Þuríður Birna að spila vel hjá gestunum og er mikill leiðtogi í þeirra liði.  Hjá heimastúlkum átti Karen Lind ágætis leik en leikurinn annars erfiður hjá Tindastól, einungis 24% hittni og 25 tapaðir boltar.

Tölfræði leiks

Umfjöllun, myndir / Hjalti Árna


Mynd: Þuríður Birna lék vel í dag