Leikmaður Njarðvíkur í Dominos deild karla Maciej Baginski verður frá keppni næstu þrjá mánuðina. Staðfestir félagið þetta í fréttatilkynningu fyrr í dag.

Maciej mun hafa snúið sig á ökkla og eftir myndatökur er komið í ljós að beinmar er í ökklanum og mun hann vera frá og þurfa endurhæfingu vegna þess. Það sem af er tímabili hafði leikmaðurinn aðeins leikið einn leik fyrir áramót, en ekkert tekið þátt síðan að deildin fór aftur af stað um miðjan mánuðinn. Í 21 leik með Njarðvík í fyrra skilaði hann 11 stigum og 2 fráköstum að meðaltali í leik.

Fréttatilkynning:

Maciej Baginski verður frá næstu vikur en hann sneri sig á ökkla milli hátíða og eftir myndatöku í gær kom í ljós að hann er með beinmar í ökkla. Samkvæmt lækni gæti þessi öflugi leikmaður verið frá í allt að 12 vikur. Maciej er því í endurhæfingarferli næstu vikur og verður að koma í ljós hvenær við fáum að njóta krafta hans í slagnum í Domino´s deildinni.

Við sendum okkar manni baráttukveðjur í endurhæfingunni og erum ekki í vafa um að hann er jafn spenntur að komast inn á parketið og við erum að sjá hann í grænu!