Keflavík lagði Þór í kvöld í annarri umferð Dominos deildar karla, 115-87. Keflavík það sem af er unnið báða leiki sína á meðan að Þórsarar hafa unnið einn og tapað einum.

Gangur leiks

Leikurinn var í járnum í upphafi. Allt jafnt eftir fyrsta leikhluta, 24-24. Heimamenn í Keflavík sýna þó tennurnar eilítið undir lok annars leikhlutans. Fara með nauma 5 stiga forystu til búningsherbergja í hálfleik, 50-45.

Í upphafi seinni hálfleiksins lét Keflavík svo kné fylgja kviði. Leikmaður þeirra Calvin Burks Jr. snögghitnaði og setti 11 stig í röð eftir að hafa verið afleitur fram að því í leiknum. Staðan fyrir lokaleikhluta 86-69 fyrir heimamönnum. Eftirleikurinn virtist frekar auðveldur fyrir heimamenn, fer svo að lokum að þeir hafa 28 stiga sigur, 115-87.

Álagið

Augljóst er að þjálfarar liða í deildinni ætla að dreifa álagi á leikmenn sína þegar spilað er jafn oft og gert verður næstu vikurnar. Leikur kvöldsins engin undantekning hvað það varðaði. Virkilega áhugavert að sjá Þórsara koma 9 af leikmönnum sínum á blað í stigaskorun í fyrri hálfleik og Keflavík 7 leikmönnum. Sérstaklega gaman að sjá unga leikmenn, Styrmir Snær Þrastarson hjá Þór og Arnór Sveinsson hjá Keflavík, standa sig í stórum hlutverkum í sínum liðum í leiknum.

Tölfræðin lýgur ekki

Keflvíkingar áttu teiginn í leik kvöldsins, tóku 57 fráköst í leiknum á móti 35 hjá Þór.

Atkvæðamestir

Dominykas Milka var sjálfum sér líkur í kvöld. Besti leikmaður vallarins, 27 stig, 13 fráköst og með 75% skotnýtingu. Fyrir Þór var það Larry Thomas sem dróg vagninn með 22 stigum og 4 fráköstum.

Hvað svo?

Keflavík mætir Haukum í Ólafssal komandi mánudag 18. janúar, en Þórsarar fá Grindavík í heimsókn til Þorlákshafnar degi áður, sunnudag 17. janúar.

Tölfræði leiks

Myndasafn (SBS)