Botnslagur Dominos deildar kvenna fór fram í dag þegar bæði liðin sem voru án sigurs í deildinni Breiðablik og KR mættust í DHL-höllinni.

Breiðablik tók strax forystuna og voru skrefi á undan allan leikinn. KR hélt í þær framan af fyrri hálfleik en Blikar sigu örlítið framúr fyrir hálfleik og leiddu með 8 stigum í hálfleik.

Það er óhætt að segja að KR hafi svo gott sem orðið eftir í klefa í hálfleik því liðið var algjörlega týnt í upphafi þriðja leikhluta. Blikar settu ellefu stig í röð og náðu þá í góða forystu sem liðið gaf ekki eftir út leikinn.

KR átti lítið inni til að ógna forystu Blika og vann Breiðablik fyrsta leik sinn (formlega amk) á tímabilinu, 58-73.

Hjá Breiðablik var Ísabella Ósk algjörlega frábær og endaði með 9 stig, 22! fráköst og fjögur varin skot. Hún spilaði flotta vörn og gerði KR mjög erfitt fyrir að komast nálægt körfunni. Í liði KR var Annika Holopainen lang best með 20 stig og 17 fráköst.

Breiðablik er þar með komið á töfluna og eiga leik gegn Skallagrím næsta miðvikudag. KR aftur á móti er enn í leit af fyrsta sigri tímabilsins og eiga nýliða Fjölnis í næstu umferð.

Tölfræði leiksins