ÍR og Þór Akureyri mættust í kvöld í Hertz-hellinum í þriðja leik liðanna eftir að karfan hófst á ný. Gestirnir frá Akureyri höfðu enn ekki unnið leik á meðan að ÍR-ingar hafði aðeins unnið útileiki sína. Leikurinn var mjög jafn í fyrri hálfleik en Breiðhyltingar stungu Þórsara af í seinni hálfleik með góðri vörn. Heimamenn unnu sannfærandi sigur, 105-90.

Gangur leiksins

Bæði lið byrjuðu leikinn nokkuð vel en ÍR hafði örlitla forystu mestan hluta fyrri hálfleiksins. Þór Akureyri var samt aldrei langt undan og þeir misstu heimamenn aldrei meira en átta stigum frá sér. Það virtist hins vegar vanta pínulítið upp á að rauðklæddu gestirnir að norðan gætu tekið fram úr ÍR.

Sókn beggja liða var ágæt en munurinn á liðunum lá í vörn þeirra innan og utan teigs. ÍR gerði vængmönnum Þórs erfitt fyrir en áttu í erfiðleikum með að loka vörnum sínum með varnarfrákasti. Þórsarar náðu þannig að halda í við heimamenn með því að fjölga tækifærum sínum til að skora. Á hinum enda vallarins voru gestirnir góðir að grípa sín eigin varnarfráköst en gekk illa að hemja leikmenn eins og Everage Richardson og Evan Singletary sem skoruðu oft að vild. Staðan í hálfleik var því nokkuð jöfn, 51-48 fyrir ÍR.

Seinni hálfleikurinn byrjaði með því að ÍR reyndi að spila svæðisvörn til að hemja sóknir Þórs en það gekk lítið. Þórsarar náðu lítilli forystu meðan ÍR virtust óskipulagðir í svæðinu. Þá skipti Borche Ilievski, þjálfari ÍR, yfir í að pressa völlinn. Akureyringar höfðu lítil svör við því og eins og hendi væri veifað misstu þeir leikinn frá sér. Úr stöðunni 53-55 náðu ÍR-ingar aldeilis að rétta af kútinn og með harðfylgi og pressu skoraði heimaliðið 29 stig gegn 9 stigum hjá Þór Akureyri fram að leikhlutaskiptunum. Staðan orðin 82-64 þegar 10 mínútur lifðu leiks.

Seinasti leikhlutinn var ekkert sérlega spennandi enda skiptu báðir þjálfarar varamannabekkjum sínum inn á með tæpar fimm mínútur til leiksloka. Lokastaðan varð 105-90, ÍR í vil.

Vendipunkturinn

Leikurinn snérist þegar ÍR-ingar settu stífa pressuvörn á Þór í þriðja leikhluta. Fram að því hafði allt verið jafnt en varnarákafi heimamanna skilaði sér í fljótum sóknum og mikið af opnum þriggja stiga skotum í hraðaupphlaupum.

Lykilleikmaðurinn

Maður leiksins var gamli refurinn í liði ÍR, Everage Lee Richardson. Hann skoraði 28 stig (81% skotnýting), gaf 5 stoðsendingar og stal tveimur boltum á aðeins 25 mínútum spiluðum. Það er hrein unun að fylgjast með þessum leikmanni smeygja sér fram hjá varnarmönnum og skora með ótrúlegum skotum. Sigvaldi Eggertsson átti líka góðan leik með 24 stigum, 9 fráköstum, 4 stoðsendingum og 3 stolnum boltum.

Í liði Þórs var Ivan Aurrecoechea Alcolado, miðherji Akureyringa, með flottan leik. Hann skoraði 24 stig, tók 17 fráköst, gaf 4 stoðsendingar og stal tveimur boltum.

Tölfræðin sem skildi á milli

Liðin voru bæði að hitta ágætlega í leiknum (um og í kringum 50% skotnýting hjá báðum liðum) en Þórsarar töpuðu 13 fleiri boltum. Þetta skilaði sér í að ÍR-ingar tóku á endanum fleiri skot og hittu úr fleiri skotum. Þar skildi á milli liðanna.

Kjarninn

ÍR virðist vera með mjög flott lið nú þegar sem hefur mikla breidd í bakvarðastöðunni og á vængjunum. Það sást þó í leiknum í kvöld að Breiðhyltinga vantar eitt púsl í viðbót, sannan stóran mann til að akkera vörnina og ná þessum varnarfráköstum. Ef þeir geta fundið sér góðan evrópskan framherja eða miðherja þá eru þeir orðnir varhugaverðir andstæðingar gegn öllum liðum í deildinni.

Þór Akureyri var ekki spáð háu sæti í deildinni en þeir eru alltaf að koma liðum á óvart. Þá vantar ekki mikið upp á til að geta mögulega stolið sigri í einhverjum leikjum. Þá vantar hins vegar meiri dýpt sem þjálfari þeirra, Bjarki Ármann Oddsson, sagði í viðtali eftir leikinn að væri komið í ferli. Þór mun bæta við sig leikmanni að öllum líkindum og þá þurfa lið að fara passa sig.

Tölfræði leiksins

Viðtöl eftir leikinn

Kristjana Eir: “Við ákváðum að spila smá vörn.”
Bjarki Ármann: “Við hættum að einbeita okkur.”
Sigvaldi: “[Everage] er gamli skólinn, hellingur sem er ekki hægt að kenna.”