Ingi Þór Steinþórsson er klárlega einn af betri körfuboltaþjálfurum sem Ísland hefur af sér alið. Um það vitnar glæsileg ferilskrá hans, en á henni má meðal annars finna sex stóra titla í karlaflokki og fjóra stóra titla í kvennaflokki. Þá hefur hann verið valinn þjálfari ársins fjórum sinnum. Ingi Þór hefur gert mikið og er hvergi nærri hættur. Karfan.is tók hús á kappanum.

Þá er að vinda sér í þetta; segðu mér frá sjálfum þér.

„Ég er fæddur og uppalinn í vesturbæ Reykjavíkur, en faðir minn er frá Selfossi þar sem ég á góð tengsl við föðurfjölskylduna. Ég ólst upp hjá móður minni og afa og ömmu í vesturbæ Reykjavíkur, þar sem við bjuggum fyrstu árin,“ segir Ingi Þór og heldur áfram:

„Þetta var stórfjölskylda og mikill fjölbreytileiki þar sem íþróttir voru ekki hátt skrifaðar. Við vinirnir æfðum fótbolta strax og það mátti, en það var svo ekki fyrr en ég var tíu að verða ellefu að mamma flutti með mig á Ásvallagötuna, að ég kynntist Jörundi Áka Sveinssyni og fór ég með honum á mína fyrstu körfuboltaæfingu í Melaskóla. Ég heillaðist af körfunni og hélt áfram þar.“

Ingi Þór „varð að hætta í fótbolta vegna slyss sem ég lenti í, en körfuna gat ég stundað áfram með geggjuðum vinum mínum. Ég fór svo í Hagaskóla og þaðan í Kvennaskólann. Endaði svo í Fjölbraut í Ármúla, segir Ingi Þór sem „byrjaði að vinna snemma á Landflutningum og fékk svo vinnu hjá Garra þar sem ég vann í átta ár. Þaðan fór ég yfir í að selja Tesa og Nivea og er þar að vinna á fullu, enda mjög ánægður með frábærar vörur og samstarfsfólk.“

Ingi Þór er fjölskyldumaður sem í dag býr í Kópavogi:

„Ég og konan mín, Sigrún, eigum þrjú börn; Jakob Breki er tuttugu og tveggja ára, Elvar Áki er Sautján ára og Hekla María tólf ára.“

Ingi Þór „æfði upp alla flokka hjá KR og var í mjög sterkum 1972 árgangi. Ég var ekki öflugasti leikmaðurinn en hafði mína kosti sem nýttust liðinu vel og ávallt tilbúinn að gera það sem þjálfarinn bað mig að gera. Við félagarnir fengum marga góða þjálfara á sínum tíma, en á tímabili var enginn þjálfari og við sáum um okkur sjálfir á þeim tíma; þar á meðal ein umferð í fjölliðamóti á Sauðárkróki þar sem ekki allir fengu leyfi að fara með. Lærdómsrík ferð sem ekki yrði samþykkt í dag,“ segir Ingi Þór kíminn á svip.

„Við fengum góðar viðbætur við liðið okkar þegar að við komust á menntaskólaárin og urðum Íslandsmeistarar í drengjaflokki og unglingaflokki.“

Aðeins sautján ára gamall hóf Ingi Þór þjálfaraferil sinn sem spannar nú ríflega þrjátíu ár. En hvernig kom það til að hann byrjaði að þjálfa og hvað við starfið gerir það svo spennandi að hann er enn að eftir þrjá áratugi?

„Ingó Jóns formaður bauð mér, Benna (Benedikt Guðmundsson) og Hrafni (Kristjánssyni) að þjálfa minnibolta þegar að við vorum að verða sautján ára. Ég var búinn að vera öflugur í kringum starfið – alltaf klár að hjálpa til við mót og fleira í Hagaskóla sem var heimavöllur KR á þeim tíma. Við óðum í djúpu laugina og þetta heppnaðist vel hjá okkur,“ segir Ingi Þór og bætir við:

„Það gekk vel og áhuginn blossaði enn meira upp og maður sótti í það að fylgjast með æfingum hjá meistaraflokki til að læra og bæta við sig. Það var svo þegar velja átti meistaraflokksæfingahóp haustið 1991 að Biggi Guðbjörns spurði hvort ég myndi ekki vilja vera hans aðstoðarþjálfari með meistaraflokki, sem ég þáði og lærði mikið af.“

Ingi Þór „var í kringum alla meistaraflokka félagsins í því að læra hvernig ég myndi vilja gera hlutina. Ég fékk skemmtilega hópa í hendurnar sem gekk vel og hafa flest mín lið verið sigursæl. Svo var það árið 1999 að ég fékk tækifæri með Friðrik Inga Rúnarssyni sem aðstoðarþjálfari hjá KKÍ með yngri landslið, og hef ég þangað til núna í sumar verið með eitthvað landslið frá U15 til U18.“

Hverjar eru fyrirmyndir þínar í körfunni?

„Maður leit alltaf upp til eldri þjálfara og reyndi eins og hægt var að fá ábendingar um hvernig pælingar þeirra væru. Laszlo Nemeth kom inn með mikinn innblástur og maður leit mikið upp til hans, sem og þeirra þjálfara sem í KR voru á þessum árum; Jón Sig, Axel Nikulás og fleiri. Keith Vassell hafði mikil áhrif á mig og ég fylgdi hans hugmyndafræði lengi vel eftir að hann byrjaði að þjálfa í KR. Það var skipt oft um þjálfara og ég lærði af þeim öllum góða hluti og er mjög þakkáttur fyrir þau tækifæri sem ég fékk að vera með og í kringum alla.“

Stóra tækifærið fyrir Inga Þór kom árið 1999 í kjölfar þess að „KR tók upp á því að leyfa ungum þjálfurum að spreyta sig með meistaraflokk, og var Benedikt Rúnar Guðmundsson, vinur minn, sá fyrsti sem fékk þann heiður, og hann stóð sig vel. Ég fékk minn séns eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari Keith Vassell tímabilið 1998-99, en um sumarið 1999 var mér boðið að taka einn við meistaraflokki karla. Það var Gísli Georgsson, formaður deildarinnar, sem tók sénsinn á mér. Það er alveg hægt að segja að þessi ákvörðun hafi hitt beint í mark því á mínu fyrsta ári urðum við Íslandsmeistarar árið 2000 í nýju íþróttahúsi KR.“

Fyrsti stóri titill Inga Þórs sem þjálfara kom því árið 2000, en á sínum ferli hefur hann þjálfað karlalið KR og karla- og kvennalið Snæfells, auk þess að þjálfa yngri landslið, og stóru titlarnir eru orðnir tíu – Ingi Þór vinnur titla þar sem hann kemur við. Í dag er hann aðstoðarþjálfari Stjörnunnar og þjálfar líka yngri flokka hjá félaginu. Ingi Þór þekkir því vel að þjálfa bæði karla- og kvennalið og ég spyr hann hvort það sé munur að karla og konur?

„Já, það er munur á því – nálgunin er ekki sú sama en þegar ég þjálfaði stelpurnar í Stykkishólmi nálgaðist ég þær ekkert öðruvísi þar sem þær voru alveg magnaðar og tilbúnar til að gera þá hluti sem þær voru beðnar um; þær vildu árangur og með Baldur Þorleifs með mér var ekkert í boði að gera eitthvað annað. Ég lærði helling á því að þjálfa stelpur og hafði gaman af. Ég þjálfaði einu sinni U18 landslið kvenna og var það öflugur hópur sem náði langt með frábæru hugarfari.“

Segðu mér frá þjálfunaraðferðum þínum.

„Ég er sanngjarn þjálfari sem hugsa um alla í liðinu – passa uppá að virkja sem flesta til að heildin skili sér. Ég er vinnusamur þjálfari sem er ekki of góður til að gera einhverja hluti sem þarf að gera til að liðið virki. Ég læt verkin tala og trúi því að ef leikmönnum og þjálfurum liður vel í því umhverfi sem þeir eru í gerist góðir hlutir.“

Ingi Þór hefur verið duglegur að halda sér við sem þjálfari „enda er leikurinn í sífelldri þróun. aIngiÉg hef alltaf verið öflugur að sækja námskeið, bæði öll sem hafa verið haldin hérna heima, og einnig mörg erlendis. Ég sótti FECC námið sem var góður lærdómur og mikið tengslanet sem nýtist manni vel. Körfuboltinn breytist hratt og maður þarf að vera á tánum til að fylgja eftir þróuninni sem er í boltanum. Ég er til dæmis núna í EHCB Coaches Academy námi sem stendur yfir í átta mánuði, og er að uppfæra mig, en það er nám á vegum Euroleague með frábærum þjálfurum og prófessorum í Serbíu.“

Aðspurður segir Ingi Þór að karfan hér á landi sé á réttri leið:  

„Við erum að gera fína hluti og metnaður leikmanna sem vilja ná langt er til staðar; það þarf hins vegar að halda vel á spilunum og yngri leikmenn í dag þurfa að skilja að ekkert kemur af sjálfu sér. Leikmenn þurfa að leggja hart að sér og hafa metnað til að ná sínum markmiðum.“

Ingi Þór kom heim í KR árið 2018 eftir níu ára starf í Stykkishólmi þar sem hann náði frábærum árangri. Hann leiddi KR til Íslandsmeistaratitils árið 2019 en var hins vegar sagt upp störfum í maí árið eftir, og kom sú ákvörðun mörgum á óvart. Inga Þór var boðin staða yfirmanns körfuboltamála hjá KR, en hann hafnaði því starfi. Skyldi það aldrei hafa komið til greina hjá Inga Þór að taka við sem yfirmaður körfuboltamála hjá KR og kom uppsögnin honum á óvart?

“Uppsögnin kom mér mjög á óvart, en svona er þessi bransi. Þeir vildu breytingu og það urðu heldur betur breytingar á liðinu,“ segir Ingi Þór og bætir við:

„Staðan yfirmaður körfuboltamála hjá KR er flott hugmynd sem ég hefði alveg getað séð mig gera mjög vel í. Ég var hins vegar ekki tilbúinn að þiggja starfið miðað við hvernig staðið var að uppsögn minni hjá hjá KR. Ég taldi það eina rétta að fara annað og rækta þjálfarann Inga Þór, þar sem ég tel mig enn þá eiga töluvert mikið fram að færa og einnig læra nýja hluti sem er nauðsynlegt fyrir þjálfara; ég elska að þjálfa og ætla mér að gera það áfram.“

Innan tveggja vikna frá brottrekstrinum frá KR var Ingi Þór komið með nýtt starf – aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla og yngri flokka þjálfari Stjörnunnar.

Segðu mér frá starfinu hjá Stjörnunni.

„Það er mikill metnaður hjá körfuknattleiksdeild Stjörnunnar og vel að öllu staðið. Ég er aðstoðarþjálfari – ásamt Danielle Rodriguez – hjá meistaraflokki karla þar sem Arnar Guðjónsson er aðalþjálfari, og svo er ég aðalþjálfari í unglinga- og drengjaflokki með Óskar Þór Þorsteinsson sem aðstoðarþjálfara. Fjölmennur hópur af efnilegum strákum. Mikið af flottum iðkendum í Stjörnunni sem vilja ná langt og það er gaman að vera partur af því að aðstoða þau að njóta lífsins í körfu og ná markmiðum sínum.“

Þegar þú lítur yfir ferilinn, hvað stendur þá upp úr?

„Ferill minn er langur – spannar þrjátíu og tvö ár – og ég hef verið sigursæll. Mér hefur gengið vel á öllum vígstöðum, en að koma U18 upp í A-deild árið 2006 með 1987 liðið var risa afrek á sínum tíma. Að ná besta árangri sem kvennalandsliðið hefur náð, í undanúrslit B-deildar U-18 var líka magnað. En hérna heima þá var það að gera Snæfell að Íslandsmeisturum í fyrsta skipti í karla- og kvennaflokki risastórt, sem og titlarnir þrír í röð hjá konunum. Að koma til baka í KR 2018 var mikil áskorun og margir sögðu mig vera klikkaðan að fara í þetta starf, en að standast þá áskorun og klára var sennilega eitt af mínum stærstu afrekum.“

Fylgistu með öðrum íþróttum?

„Já, ég fylgist ágætlega vel með öðum íþróttum; held með Los Angeles Lakers í NBA og  Manchester United í enska boltanum. Ég fylgist mjög vel með fótboltanum á sumrin hérna heima og hef gaman að. En hef alla tíð verið mikill áhugamaður um íþróttir.“

Jæja Ingi Þór, svona að lokum, hver eru þín helstu áhugamál?

„Ég elska að elda og grúska mikið í því; að setja hjartað í sósugerð er eitthvað sem maður kaupir ekki út í búð. Mér finnst mjög gaman að veiða, en hef ekkert sinnt því eins og ég hefði viljað vegna anna á sumrin með yngri landsliðum, en ég held að það sé ráð að gera betur á næstu árum. Ég hef alveg gríðarlega gaman af því að hitta vini og vinafólk okkar hjóna, og saknar maður þess að fá fólk í helgarheimsókn í Stykkishólm, en það var mikil sjarmi í kringum það. Ég hlakka til komandi tíma þegar að hægt verður að hittast almennilega og njóta lífsins.“

Texti / Svanur Már Snorrason