Haukar fengu það leiða hlutverk að fá KR-inga í heimsókn eftir umtalað afhroð þeirra í síðustu umferð. Þó hafa gestirnir halað inn 6 stig þrátt fyrir svipaða meðalhæð og hjá tuðrusparkliði þeirra. Heimamenn hafa ekki tapað neinum leik mjög stórt en hafa aðeins 2 stig í sínum poka. Bæði lið ættu því að mæta banhungruð í lífsbaráttu deildarinnar í kvöld.

Spádómskúlan: Kúlan er í jarðbundna gírnum þessi dægrin auk þess sem hún er almennt frekar fúllynd þegar kemur að því að spá fyrir um leiki KR-inga. ,,Huh, sært rautt ljón spilar ekki leiki, það drepur; 75-95.“

Byrjunarlið:

Haukar: Hansel, Hilmar, Emil, Raggi, Brian

KR: Matti, Jakob, Sabin, Helgi, Brilli

Gangur leiksins

Byrjunarliðin beggja megin komu kannski svolítið á óvart. Nazione byrjaði ekki fyrir KR en Nat-vélin hins vegar fyrir heimamenn og hún setti fyrstu stig leiksins. Liðin skiptust á þristum í framhaldinu og jafnt var á öllum tölum. Það var ljóst, jafnvel fyrir leik, að þetta yrði barátta milli hraðans og hæðarinnar og liðin kepptust við að nýta sína styrkleika. KR-ingum gekk prýðilega að skapa sér góð skotfæri en hittu frekar illa (lesist ágætlega miðað við síðasta leik) og Haukum gekk einnig ágætlega að nýta sér hæðina. Heimamenn áttu síðustu 10 stig fyrsta leikhlutans og leiddu 29-19 að honum loknum.

Nazione kom illa tengdur inn á hjá KR og var mest í því að tapa boltanum. Eftir troðslu frá Brian leiddu heimamenn 34-22 og Kúlan farin að búa sig undir niðurlægingu. En hún getur alltaf treyst á Brilla stórskyttu sem henti í fjögurra stiga sókn og skömmu síðar var staðan 38-32 og Martin tók leikhlé. Sabin tók þá upp á því að hitta alltaf og jafnaði leikinn með þristi í 40-40. Hraðinn hafði klárlega betur undir lok fyrri hálfleiks og KR-ingar leiddu 44-48 í leikhléi.

Sabin opnaði seinni hálfleikinn með þristi en Hansel svaraði jafnharðan. Brilli fékk svo galopinn þrist sem steinlá og Martin var eðlilega alveg BRJÁL á hliðarlínunni. Nat-vélin kom þá skömmu síðar inn á og skilaði fínu framlagi sem fyrr í leiknum. Raggi minnkaði muninn í 59-61 eftir gott sóknarfrákast og troðslu og Bracey jafnaði svo leikinn í 64-64 þegar skammt var eftir af þriðja. En aftur áttu gestirnir lokasprettinn og leiddu 64-73 fyrir fjórða.

Sabin hélt áfram að hitta alltaf og það er hreinlega körfuboltalegur ómöguleiki að stöðva þennan mann! Gestirnir byrjuðu betur í fjórða leikhluta og bættu við 9 stiga forystuna hratt og örugglega með Sabin í broddi fylkingar. Þegar 7 mínútur voru eftir var staðan 70-87 og leikurinn nánast búinn allt í einu. Lítið var skorað næstu mínútur sem hentaði gestunum vel og segja má að Matti hafi bundið endahnútinn á leikinn með þristi eftir stoðsendingu frá Sabin, staðan þá 73-90 og innan við fjórar mínútur eftir. Heimamenn voru aldrei líklegir til endurkomu og lokatölur urðu 87-103. Nokkuð öruggur sigur KR að lokum og Kúlan hvíslaði alvarleg á svip ,,…sagði ég ekki…“.

Maður leiksins

Tyler Sabin er augljóslega maður leiksins. Hann skoraði 39 stig og gaf 5 stoðsendingar. Brilli átti fínan leik líka og hann og KR-ingar settu helminginn af þriggja stiga skotum sínum niður í kvöld.

Brian var atkvæðamestur Haukamanna með 24 stig, 17 fráköst og 4 stoðsendingar. Fleiri áttu alveg ágætan leik sóknarlega fyrir Hauka – leikurinn tapaðist frekar hinum megin á vellinum.

Kjarninn

Hraði gegn hæð. KR-ingar áttu frekar gott með að keyra inn í vörn Hauka, vinna mann og koma vörninni á hreyfingu og skapa galopin skot. Gestirnir voru kaldir í upphafi, eitthvað smá endurlit til síðasta leiks, en það lagaðist er á leið leikinn. Haukar reyndu að nýta hæðina, bæði með því að skora undir körfunni og fá boltann aftur út í opið skot eða gegnumbrot. Það gekk á köflum ágætlega en hraðinn og Sabin sigruðu nokkuð örugglega að lokum.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)

Umfjöllun / Kári Viðarsson