Þrátt fyrir að vera aðeins þrjátíu og tveggja ára hefur Helena Sverrisdóttir leikið í meistaraflokki í tuttugu ár, eða frá því að hún var tólf ára gömul. Hún er enn að og á nóg eftir. Afreksskrá hennar er svo löng, og titlarnir svo margir, á Íslandi og í Slóvakíu, að ég læt duga að nefna að hún hefur hlotið titilinn körfuknattleikskona ársins hér á landi tólf sinnum. Þið verðið bara að fletta hinu upp sjálf.

Helena Sverrisdóttir er besta körfuknattleikskona Íslands fyrr og síðar. Karfan.is tók hana tali.

Ég byrja á því að spyrja Helenu aðeins um uppeldið, æskuna, fjölskyldu, nám og atvinnu.

„Ég er alin upp í Hafnarfirði – með mömmu pabba og þremur systkinum. Þetta er mikil körfuboltafjölskylda, þar sem pabbi var formaður körfuknattleiksdeildar Hauka í mörg ár, og mamma var “all in” líka, og við öll systkinin spiluðum körfubolta,“ segir Helena

sem æfði líka fótbolta framá unglingsár og var „algjör íþróttakrakki. Ég vissi ekkert betra en að vera úti í skóla í fótbolta eða á hlaupahjóli um Norðurbæinn með vinkonunum. En síðan þegar ég varð tólf ára fór ég á kaf í körfuna; ætlaði að verða best á Íslandi og lífið snerist algjörlega um það.“

Helena setti snemma stefnuna á að komast til Bandaríkjanna í skóla „og ég vildi drífa mig að klára stúdentinn til að komast sem fyrst út til Texas, en þangað var stefnan sett þegar ég var sextán ára, eftir að hafa farið í heimsóknir hjá atvinnumannaliðum í Evrópu. Ég tók þá ákvörðun að fara fyrst í háskóla og síðan í atvinnumennsku.“

Helena segir það hafa verið algerlega ómetanlegt hvað hún fékk alltaf og fær enn mikinn stuðning frá fjölskyldunni sinni, en hún er gift körfuknattleiksmanninum Finni Atla Magnússyni: „Ég er mjög heppin með fjölskyldu, foreldrar okkar styðja okkur í einu og öllu og við erum ótrúlega náin. Síðan er ég sjálf búin að gifta mig og við Finnur komin með tvö börn, þannig að lífið er bara æðislegt,“ segir Helena sem í dag þjálfar og spilar körfubolta með Val „og hef undanfarið verið að stunda meistaranám við HÍ til að fá leyfisbréf kennara – er búin með allt bóklegt en þarf að klára verknámið sem frestaðist aðeins vegna fæðingarorlofsins.“

Hvað hafa háskólaárin gefið þér sem og atvinnumannaferilinn í Evrópu?

„Það stærsta sem árin mín úti gáfu mér er þroski og virðing fyrir náunganum. Ég kynntist alveg fullt af fólki með allskyns bakgrunn og það er mjög gaman að halda enn sambandi við gamla liðsfélaga, héðan og þaðan um heiminn. Ég var átta ár erlendis og upplifði ótrúlega skemmtilega og krefjandi tíma, en var mjög tilbúin að koma heim á sínum tíma.“

En hvað skyldi Helenu finnast um þróun körfuboltans á Íslandi frá því að hún byrjaði að spila með meistaraflokki?

„Þróunin hefur helst verið sú að það eru fleiri stelpur að spila núna og gæðin hafa aukist. Hins vegar hætta íslenskar stelpur því miður alltof snemma og við missum svo margar alltof fljótt. Ástæðan fyrir því gæti verið að stelpur eru oft byrjaðar að spila í úrvalsdeildinni mjög ungar, oft um sextán ára aldurinn. Þegar þær eru síðan orðnar tuttugu og sex ára þá er þetta bara komið nóg fyrir margar; tíu ár er ansi langur tími, en ég vildi óska þess að sjá stelpur spila lengur,“ segir Helena og bætir við:

„Sama á við um landsliðið – við erum að mínu mati með hæfileikaríkari leikmenn en áður en þær detta út of snemma; síðan hafa okkar bestu stelpur sem fara í háskóla verið að missa af landsleikjum út af nýja fyrirkomulaginu með þessa glugga; við höfum því ekki náð að tefla fram okkar besta liði í nokkur ár og við megum vart við því að vera án fjögurra til fimm mjög góðra leikmanna.“

Helena ólst upp hjá Haukum en eftir að atvinnumannaferlinum erlendis lauk ákvað hún að ganga til liðs við Val árið 2018. Hún segir ákvörðunina hafa í raun snúist um tvennt:

„Þegar við komum heim þurfti ég að taka ákvörðun um að fara “heim” í Hauka í þægindarammann, eða fara á nýjan stað þar sem ég þurfti að sanna mig uppá nýtt og í umhverfi þar sem ég var eins og atvinnumaður, en bara á Íslandi. Það var hörku áskorun að fara í Val en það spilaði líka inn í að Gugga (Guðbjörg Sverrisdóttir, systir Helenu) væri í Val; mér fannst mjög freistandi að koma í hungraðan klúbb sem er nánast með allt uppá tíu utan vallar, og það að spila með systur minni.“

Það hefur verið rífandi uppgangur hjá Val í körfunni síðustu ár – sem og öðrum greinum – og segir Helena að „það er mjög fagmannlegt umhverfi á Hlíðarenda og handboltinn og fótboltinn alltaf í toppbaráttu hjá báðum kynjum, og karfan er núna farin að setja sitt mark á deildirnar líka. Það er mikill metnaður og því fylgja kröfur um árangur sem er ótrúlega spennandi umhverfi fyrir keppnisfólk.“

Helena segir einnig að „vinnan sem á sér stað í yngri flokkunum er síðan það sem skiptir mestu máli; að stækka körfuknattleiksdeildina og vera með alvöru þjálfara hjá krökkunum sem síðan vonandi skila sér í meistaraflokkana þegar þar að kemur.“

Helena segir aðspurð að það gangi ágætlega að samræma fjölskyldulífið og körfuboltann.

„Við erum sem betur fer með ótrúlega góðar og viljugar ömmur sem aðstoða okkur mikið. Við Finnur fundum að það er nauðsynlegt fyrir okkur að vera í sama félaginu til að æfingatímar skarist ekki, og dætur okkar eyða ansi miklum tíma í íþróttahúsinu. Eldri stelpan okkar elskar að fá að koma með á æfingar og sú yngri, sem er nú bara eins mánaða hefur nú þegar eytt smá tíma þar – bara í bílstólnum sínum á meðan foreldrarnir gera „skiptingu“ segir Helena og hlær. Bætir þessu við: „Þetta tekur alveg á og krefst þess að vera vel skipulagður en okkur finnst bara enn þá svo gaman að spila að við látum þetta ganga upp.“

Hver er efnilegasti leikmaðurinn eða leikmennirnir í dag að mati Helenu?

„Það er erfitt að velja einhverja einstaka og segja að þeir séu efnilegastir. Það sem hefur gerst of oft hjá krökkunum okkar er að þau er ótrúlega efnileg og er hampað fyrir en síðan hætta þau að bæta sig, en toppurinn er ekki að vera efnilegur á Íslandi, þannig að ég vona innilega að þau setji markið hærra og virkilega leggi á sig. Við eigum fullt af flottum ungum leikmönnum og ég hlakka til að sjá hvernig þau tækla unglingsárin og vonandi sjáum við fleiri súperstjörnur á næstu árum.“

Af öllum glæsilegu sigrunum, Helena, hver er sá sætasti?

„Það er þegar ég vann með Haukum 2018. Að vinna með uppeldisfélaginu og öllum stelpunum mínum sem ég hafði þjálfað eða æft með síðan þær voru litlar; það var ótrúlega skemmtilegur titill. Svo verð ég að nefna sigurinn á Norðurlandamótinu með u16 árið 2004 – mjög eftirminnilegt því að kvennaliðunum gengur endilega ekkert alltof vel á Norðurlandamótinu. Svo er ekki annað hægt en að minnast á titlana með Val árið 2019 – þeir fyrstu í sögunni fyrir félagið og gaman að eiga þátt í því.“

En sárasta tapið?

„Oddaleikurinn í lokaúrslitunum árið 2015. Við í Haukunum vorum kanalausar og fórum í fimm leiki gegn Snæfell og töpum í oddaleiknum. Ég man að ég gjörsamlega setti allt mitt í þá seríu, meiddist í kálfa, og keppti nánast á öðrum fætinum síðustu leikina. Þvílíka stemmningin sem var á Ásvöllum í leik fimm, og ótrúlega sárt að tapa.“

Hvað heldurðu að þú munir spila lengi?

„Ég hef verið að fá þessa spurningu af og til og líka bara spurt sjálfa mig að þessu. Svarið mitt er einfaldlega að á meðan mér finnst enn þá gaman í körfu og á meðan líkaminn heldur þá spila ég. Þegar ég hætti mun ég pottþétt þjálfa og vera mikið í kringum körfubolta, ég segi bara, hví ekki að spila bara eins lengi og maður getur, ég ætla að gera það.“

Er körfuboltinn fullt starf eða ertu að vinna meðfram körfunni?

„Karfan og þjálfunin er fullt starf hjá mér og hefur verið síðan ég kláraði háskóla. Ég hins vegar er að sækja mér kennararéttindi því ég geri mér grein fyrir því að maður getur ekki spilað að eilífu, og því gott að vera með möguleika tilbúna þegar að því kemur að fara í “venjulega” vinnu.“

Svona að lokum, hver eru helstu áhugamál þín?

„Helstu áhugamál mín fyrir utan körfu eru að ferðast. Með tvö börn hefur lífið auðvitað tekið miklum breytingum, en ég hlakka mikið til þegar við getum ferðast aftur, enda vorum við hjónin dugleg að ferðast og skoða nýja staði og ég hlakka til að gera það með dætur okkar með eða jafnvel helgarferðir, bara við tvö, ég og Finnur.“

Texti / Svanur Már Snorrason