Kanalausir Haukar fengu troðfullt lið Keflvíkinga í heimsókn í þriðju umferð Dominos-deildarinnar í kvöld. Haukar unnu í Njarðvík í síðustu umferð sem er sterkt jafnvel þó Njarðvíkingar hafi ekki verið fullmannaðir. Keflvíkingar eru hins vegar að mati undirritaðs með besta lið deildarinnar um þessar mundir og hafa unnið tvo fyrstu leiki sína örugglega. Það var brekka í augsýn fyrir heimamenn og kúlan tekur undir það…

Spádómskúlan: Kúlan sleppir allri dulúð og myndhverfingum fyrir þennan – auðveldur sigur piltanna frá Kef City 83-103.

Byrjunarlið:

Haukar: Hansel, Breki, Bracey, Ingvi, Brian

Keflavík: Hössi, Valur, Milka, Dean, Burks

Gangur leiksins

Fyrstu stigin létu bíða eftir sér en Dean braut ísinn af línunni eftir góðar tvær mínútur. Helst var búið að skrá villur á Hauka á töfluna og ljóst að baráttan undir körfunni gæti orðið þeim erfið. Eftir fjögurra mínútna leik voru heimamenn enn án stiga, staðan 0-9 og Martin tók leikhlé. Mínútu síðar var staðan 2-12 og voru það einkum Burks og Hössi sem höfðu sett stig á töfluna. Natvélin og Hilmar P. komu af bekknum fyrir heimamenn og hreinlega björguðu Haukamönnum frá átakanlegum hörmungum ásamt Brian. Hilmar setti góðan þrist og Natvélin átti fína postup-hreyfingu og staðan 15-20 eftir fyrsta leikhluta.

Heimamenn héldu í við gestina fram eftir öðrum leikhluta og enn voru það Brian, Raggi og Hilmar sem héldu uppi heiðri Hauka. Drengirnir frá Sunny-Kef héldu sér þó alltaf í forystu og einkum Milka og Ágúst Orra gengu til liðs við Hössa og Burks í stigaskorun. Staðan var 29-30 eftir þriðja þrist Hilmars og 3 mínútur rúmar voru til leikhlés. Hansel ákvað þá að halda áfram að vera skelfilegur og gaf Keflvíkingum hraðaupphlaup sem endaði með þristi frá Gústa. Hann bætti tveimur góðum stigum við skömmu síðar og kom sínum mönnum í 29-37. Leikar stóðu 33-40 í hálfleik og máttu Haukar prísa sig sæla með þá stöðu. Brian var með 9 stig fyrir heimamenn og eini byrjunarliðsleikmaðurinn með meðvitund í hálfleiknum. Keflvíkingar voru svo sem ekki að setja nein met heldur, Burks var með 12 stig en Milka og Dean óvenju mannlegir eitthvað!

Í raun voru sennilega flestir að bíða eftir því að gestirnir úr Bítlabænum myndu koma sér í 15-20 forystu eða svo og hreinlega klára leikinn. En það gerðist bara ekki, Hansel rak af sér slyðruorðið og fór loksins að gera eitthvað af viti fyrir sína menn. Gestirnir létu þó ekki forystuna af hendi og Milka og Dean voru allnokkuð líkari sjálfum sér í síðari hálfleik. Þegar um 3 mínútur voru eftir að þriðja minnti ungi gæðingurinn Arnór Sveinsson á sig með góðum körfum og kom Keflavík, loksins, í 10 stiga forystumúrinn góða. Eftir að leikhlutinn var úti leiddu gestirnir 53-66.

Haukamenn byrjuðu hreint ágætlega í fjórða leikhluta og Breki Gylfa reið á vaðið með snöggum 5 stigum og Brian bætti þristi við og staðan allt í einu 63-68. Breki fékk svo sína fimmtu villu sem var verulega óheppilegt fyrir Hauka. Emil Barja smellti þó þremur stigum og minnkaði muninn í 66-68. Hjalti var líkast til ekkert sérstaklega ánægður með þessa þróun mála en vörnin hjá Keflavík hafði verið hreint ágæt í þriðja og menn á bekknum að öskra smá varnaranda í leikmenn. Um miðjan leikhlutann tók Martin leikhlé eftir að gestirnir höfðu svarað með 5 stigum, staðan 66-73. Það hafði tæplega tilætluð áhrif enda töpuðu Haukar þremur boltum á næstu 90 sekúndum eða svo og gestirnir endurbyggðu múrinn fyrrnefnda. Hössi og Dean kláruðu leikinn hvor með sínum þristinum og leikum lauk með 76-83 sigri Keflavíkur.

Menn leiksins

Milka fór hægt af stað eins og fram hefur komið en endaði þó með 19 stig og 12 fráköst. Aðrir í byrjunarliði gestanna enduðu í raun með ágætar tölur ásamt Gústa og Arnóri af bekknum en það var samt eitthvað slen yfir þessu hjá Keflvíkingum.

Hjá Haukum var Brian bestur með 16 stig og 11 fráköst. Hansel var gersamlega afleitur hálfan leikinn en endaði þó einnig með 16 stig. Aðrir voru lítið sjáanlegir mestallan leikinn en Emil og Hilmar áttu sína spretti.

Kjarninn

Fyrirliðar liðanna voru sammála undirrituðum um að leikurinn var hreinlega lélegur. Keflvíkingar tóku stigin með sér heim en sennilega fátt annað. Heimamenn virtust aldrei hafa trú á því að geta stolið þessum sigri en voru samt meira og minna allan leikinn aðeins 1-4 körfum á eftir. Ljósi punkturinn er kannski vörnin á köflum, stóru mennirnir gerðu oft vel gegn Milka og Dean þó það hafi kostað umtalsvert af villum. Eru Haukar að bíða eftir Morris og Keflvíkingar eftir úrslitakeppninni?

Tölfræði leiks

Umfjöllun / Kári Viðarsson