Hver er besti erlendi leikmaðurinn í karlaflokki sem hefur spilað hér á landi? Niðurstaða hvers og eins er í raun eina svarið við þessari spurningu. Niðurstaðan getur byggst á mörgum þáttum; stigaskori, titlum og tilþrifum og almennt góðum áhrifum á deildina hverju sinni. Og mörgum öðrum þáttum. Svo eru margir sem segja óhikað að uppáhaldsleikmaðurinn þeirra sé besti leikmaðurinn, þið vitið.

Enginn hefur rangt fyrir sér og allir hafa rétt fyrir sér. En það er gaman að pæla í þessu, og það hef ég verið að gera. Í þessum pistli ætla ég að kasta því fram að sjaldan hafi annar eins gæðaleikmaður og Stewart Johnson – alltaf kallaður Stew – leikið í úrvalsdeildinni (og næstefstu deild líka) á Íslandi. Mér finnst alveg óhætt að segja að Stew sé allavega sá jafnbesti sem hér á landi hefur leikið, og engan leikmann bandarískan hef ég fundið sem hér hefur leikið með aðra eins sögu – annan eins prófíl – og Stew Johnson.

Til að átta sig betur á hversu góður leikmaður Stew var hafði undirritaður samband við tvo af bestu körfuknattleiksmönnum sem Ísland hefur af sér alið, þá Jón Sigurðsson og Pétur Guðmundsson, en báðir léku þeir með Stew á sínum tíma. Óhætt er að segja að þeir Jón og Pétur beri Stew söguna vel.

En fyrst er að segja frá Stew og körfuboltaferli hans.

Stew – sem er fæddur árið 1944 – var valinn af New York Knicks í nýliðavalinu árið 1966, í þriðju umferð, númer 21 í heildarvalinu, eftir glæsilegan feril í háskólaboltanum með Murray State – og var hann tekinn inn í frægðarhöll skólans árið 1979. Stew samdi þó ekki við New York Knicks en gerðist leikmaður Kentucky Colonels í ABA deildinni, sem keppti við NBA deildina um hylli körfuboltaaðdáenda í Bandaríkjunum.

Í leik með Kentucky Colonels

ABA deildin var sett á laggirnar árið 1967 og var starfrækt til ársins 1976, en þá sameinuðust deildirnar tvær, ABA og NBA, undir nafni NBA. Í ABA voru margir stórkostlegir leikmenn, má þar nefna Julius Erving (Dr. J), George Gervin (samherji Stew hjá San Antonio Spurs), Artis Gilmore og Moses Malone, svo einhverjir séu nefndir.

Öll árin níu sem ABA var starfrækt lék Stew Johnson í deildinni. Hann var ansi iðinn við að skipta um lið og á þessum tímabilum lék hann með sjö liðum. Hann var þó aldrei neinn rulluspilari.

Stew reynir að verja skot Julius Erving

Stew var lykilmaður í sínum liðum og í svo sterkri deild sem ABA vissulega var skoraði hann grimmt. Stew lék alls 647 leiki í ABA og skoraði í þeim samtals 10.538 stig, sem gera 16.3 stig að meðaltali í leik. Aðeins átta leikmenn í sögu ABA skoruðu meira en Stew. Á þessum stigalista er hann þremur sætum neðar en Dr. J. Stew var auk þess sem hinn ágætasti frákastari – hann er í nítjánda sæti yfir flest fráköst í sögu ABA. Fráköstin voru 4263 sem gera 6.6 að meðaltali í leik. Auk þess gaf hann tæplega þúsund stoðsendingar í ABA.

Stew var þrisvar sinnnum valinn í stjörnulið ABA deildarinnar, 1973, 1974 og 1975. Í stjörnuleiknum árið 1975 lék hann með liði austurstrandarinnar, sem taldi ásamt mörgum öðrum góðum, Dr J.  Stew gerði átta stig í leiknum á 14 mínútum en Doktorinn 21 stig á 27 mínútum. Þessi sömu þrjú árin sem Stew var valinn í Stjörnuliðið komst hann með liðum sínum í úrslitakeppni ABA, lék á þessum tímabilum 15 leiki í úrslitakeppninni og skoraði í þeim 238 stig, sem gera 15.7 stig að meðaltali í leik.

Stew var (og er) bæði stór og sterkur, 207 sentimetrar á hæð (6.8.), og gat bæði leikið sem miðherji og framherji. Hann var þekktur fyrir silkimjúkt skot og sem stór leikmaður var hann afbragðs skytta; gat til að mynda skorað auðveldlega úr þriggja stiga skotum, og hann var líka þekktur fyrir skot langt fyrir utan þriggja stiga línuna; Stew skoraði 269 þrista á ferli sínum í ABA.

Þá átti Stew um tíma stigamet í leik í ABA, skoraði 62 stig í einum leik.

Þegar ABA rann inn í NBA fór Stew til Sviss í eitt ár og varð landsmeistari með SP Federale Lugano árið 1977. Það þarf varla að taka það fram að Stew varð stigahæstur í deildinni. Ekki tókst þó að finna tölfræði Stew þetta tímabilið, einungis það að hann varð stigakóngur þetta tímabilið.

Eftir dvölina í Sviss hélt Stew áleiðis til Íslands og lék með og þjálfaði Ármann sem var þá í næst efstu deild. En í desember 1978, varð Stew fyrir alvarlegri líkamsárás á skemmtistaðnum Hollywood. Skaddaðist Stew mikið á hægra auganu er glasi var hent framan í hann, og hann hélt skömmu síðar til Bandaríkjanna í aðgerð. Aðgerðin heppnaðist vel og hélt Stew sjóninni, en ekki mátti miklu muna að enn verr færi. Hann sneri aftur og kláraði tímabilið með Ármanni, en liðinu mistókst naumlega að komast upp í úrvalsdeild vorið 1979, og meiðsli Stew settu augljóslega stórt strik í reikninginn hvað það varðar. Enga tölfræði er að finna um tímabilið sem Stew lék með Ármanni.

Næsta skrefið hjá Stew var að spila í Argentínu, og hann samdi við River Plate í höfuðborginni Buenos Aires. Í Argentínu lék hann í tvö tímabil og enga tölfræði um Stew er að finna frá þeim tíma. Pétur Guðmundsson var liðsfélagi Stew árið 1980, eins og lesa má um hér að neðan í greininni.

Stew sneri aftur til Íslands árið 1981; samdi við KR og lék með liðinu og þjálfaði næstu tvö árin. Á þessum tveimur árum var hann einnig þjálfari kvennaliðs KR og greinilegt að Stew kunni eitt og annað fyrir sér í þjálfun; kvennaliðið undir hans stjórn vann deildina og bikarinn bæði árin – tvöfaldir meistarar tvö ár í röð.

Eftir að tímabilinu 1982-83 var lokið ákvað KKÍ að banna erlenda leikmenn og stóð það bann til ársins 1989.

Miðað við frammistöðu Stew með KR þessi tvö tímabil er líklegt að hann hefði haldið áfram að spila hér á landi, en bannið gerði það að verkum að Stew hélt af landi brott. Hann hélt til Svíþjóðar og lék þar og þjálfaði lengi, og er hann dag í dag búsettur þar í landi í borginni Helsingfors.

Á þessum tveimur tímabilum með KR lék Stew í þrjátíu og þremur leikjum. Meiðsli settu strik í reikninginn fyrra tímabilið, 1981-1982, en þá missti Stew af sjö af tuttugu deildarleikjum. Hann skoraði 32.8 stig að meðaltali í leik, sem er ansi góð tölfræði sé tekið mið af því að hann missti af tæplega helmingi mótsins.

Á tímabilinu 1982-1983 var Stew alveg laus við meiðsli og missti ekki af leik. Í tuttugu deildarleikjum skoraði Stew 38.2 stig að meðaltali í leik. Þetta er annað besta stigaskor í sögu úrvalsdeildarinnar hér á landi. Aðeins Danny Shouse, sem lék tvö tímabil með Njarðvík, 1980-1981 og 1981-1982, skoraði meira en Stew. Shouse skoraði 40 stig að meðaltali í leik á fyrra tímabili sínu með Njarðvík. Hafa ber í huga að Shouse var tuttugu og þriggja ára þegar hann setti stigametið fyrir einstakt tímabil; Stew Johnson var þrjátíu og níu ára á síðara tímabili sínu með KR og var með tæp þrjátíu og níu stig að meðaltali í leik, sem er ansi hreint magnað og gefur góða mynd af því hversu rosalega góður leikmaður Stew var.

Stew ásamt dóttur sinni, Precious og konu sinni Sofi Johnson

Karfan.is setti sig í samband við tvo af bestu körfuknattleiksmönnum Íslands fyrr og síðar, þá Jón Sigurðsson og Pétur Guðmundsson, og spurði þá út í Stew Johnson, en Jón lék með honum í tvö tímabil og Pétur eitt.

Jón Sigurðsson um Stew Johnson:

„Stew Johnson var algjörlega magnaður leikmaður og svakaleg skytta sem skoraði alltaf mjög mikið,“ segir fyrrum landsliðsfyrirliðinn og margfaldi Íslands- og bikarmeistarinn með Ármanni og KR, Jón Sigurðsson, og bætir við:

Jón með Íslandsmeisturum KR 1979

„Stew var ekki bara góður sóknarmaður; hann var þrælsterkur í vörn og tók mjög mikið af fráköstum.“

Jón segir að þótt Stew hafi verið að nálgast fertugt hafi „hann alltaf viljað spila hratt og hlaupið mikið, og eftir frákast ýmist dúndraði Stew boltanum fram á leikmann í hraðupphlaupi, eða tók á rás sjálfur og skaut á körfuna langt fyrir utan þriggja stiga línuna, sem var ekki komin til sögunnar í þá daga á Íslandi.“

Jón, sem á glæsilegan feril að baki sem leikmaður og þjálfari, er ekki í nokkrum vafa um að Stew sé einn albesti bandaríski leikmaður sem á Íslandi hefur spilað:

„Það verður að segjast eins og er að það er eiginlega ótrúlegt að þessi frábæri og fjölhæfi atvinnumaður í körfubolta hafi spilað hér á Íslandi.“

Pétur lék með Lakers, Trail Blazers og Spurs í NBA deildinni.

Pétur Guðmundsson um Stew:

Pétur Guðmundsson er sá íslenski körfuknattleiksmaður sem hefur náð lengst allra; hann lék meðal annars með Los Angeles Lakers og San Antonio Spurs, eins og allir íslenskir körfuknattleiksáhugamenn vita.

„Stew og ég kynntumst fyrst árið 1980. Þá hringdi hann í mig frá Buenos Aires í Argentínu og spurði mig hvort ég hefði einhvern áhuga á að spila fyrir River Plate, en hann var þá á mála hjá þeim,“ segir Pétur um kynni sín af Stew og bætir við: „Ég vissi að hann hafði gert garðinn frægan á Íslandi eftir góðan feril í ABA deildinni, þótt ég hefði nú aldrei séð hann spila þá. En ég ákvað að taka boði liðsins í gegnum Stew um að fara til Buenos Aires í „try-out.“

Pétur skrifaði „undir samning og spilaði með River Plate það tímabilið, sem einn af þremur útlendingum, en þeir máttu nota tvo í hverjum leik. Stew var mér innan handar með ýmislegt sem að kom atvinnumennskunni, en þetta var fyrsta liðið mitt í atvinnumennskunni, ég var þarna bara nýkominn úr skóla,“ segir Pétur sem ber Stew söguna vel:

 „Stew var elsti leikmaðurinn í liðinu – 35 ára gamall – en það sem ég man einna mest eftir var hvað hann fór vel með sig; hugsaði svo vel um líkama sinn. Ég held ég muni rétt að hann hafi verið mjög góður sem ABA leikmaður, en þegar ég spilaði með honum – og mig grunar að hann hafi verið þannig líka á Íslandi – var hann grannur og mikill „finesse“ leikmaður. Vegna þess hversu vel hann fór með sig gat spilað mjög vel þangað til hann var tæplega fertugur.“

Pétur hefur spilað með og á móti mörgum af betri NBA leikmönnum sögunnar og veit alveg hvað klukkan slær í þeim efnum, og orð Péturs eru til marks um hversu góður leikmaður Stew var: „Stew var ein af bestu skyttum sem ég hef spilað með og þarna fyrir utan þriggja stiga línuna var hann oft að skjóta, og hann var að hitta langt fyrir utan það sem seinna varð þriggja stiga færi.“

Texti / Svanur Már Snorrason