Hamar-Þór fékk lið Fjölnis b í heimsókn í Icelandic glacial höllina í dag. Fyrir leik voru liðin jöfn að stigum, með tvo sigra og tvö töp hvort lið og því var fyrirfram búist við spennandi leik sem síðar varð raunin.


Leikurinn fór fremur rólega af stað og Hamar-Þór gekk fremur illa að skora í upphafi leiks, fékk fjölda góðra skottækifæra en boltinn vildi ekki ofan í. Eftir fyrsta leikhluta var staðan 10-14 Fjölni í vil. Í öðrum leikhluta var jafnræði með liðinum en Fjölnir b var alltaf skrefninu á undan. Staðan í hálfleik var 32-37 fyrir Fjölni.


Í seinni hálfleik var áfram jafnræði með liðinum, Fjölnir var þó í bílstjórasætinu mest allan tímann en náði aldrei að stinga lið Hamars-Þórs af. Um miðjan fjórða leikhluta náði Hamar-Þór að jafna leikinn og komast yfir í fyrsta sinn í leiknum, en það dugði þó ekki til og reynsla Fjölnisstúlkna skilaði þeim sigrinum undir lokin. Lokatölur voru 60-68 Fjölni í vil.


Hjá Hamar-Þór var Fallyn Stephens stigahæst með 26 stig og 14 fráköst. Hrafnhildur með 11 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar, Helga María átti góða innkomu af bekknum með 9 stig og 4 stolna bolta.


Í liði Fjölnis b var Hulda Ósk stigahæst með 17 stig og 14 fráköst, Diljá og Stefanía með 13 stig og 5 stoðsendingar og Erla Sif með 10 stig og 13 fráköst.


Tölfræði leiks

Umfjöllun / Bjarney Sif