Valur lagði ÍR í kvöld í annarri umferð Dominos deildar karla, 90-96. Eftir leikinn eru liðin jöfn að stigum, hvort um sig með einn sigur og einn tapaðan leik.

Karfan spjallaði við þjálfara Vals Finn Frey Stefánsson eftir leik í Hellinum í kvöld.

Fyrir utan kannski fyrstu örfáu mínúturnar tókuð þið svolítið yfir, þið náðuð að opna vörnina þeirra hægri vinstri og þetta leit vel út eftir fyrsta. Svo fóru þeir í svæði og það er gömul saga og ný að það breytir alltaf einhverju og það gekk ekkert alltof vel hjá ykkur…

Neinei…mér fannst við vera að forsa ákveðnum hlutum á móti svæðinu en mér fannst við fá fínar opnanir framan af en svo fórum við kannski svolítið frá því sem var að ganga vel. Með þennan tíma sem við höfum haft höfum við kannski meira verið að horfa meira á maður á mann en svæði – en svæðið kom flott þarna inn en um leið og við fundum opnunina þá vorum við að gera vel og fengum fín færi sem við nýtum á venjulegum degi.

ÍR-ingarnir voru komnir á köflum einhverjum 8 stigum yfir þarna á kafla í seinni og þið virtust svolítið ringlaðir á köflum…varstu farinn að hafa áhyggjur á einhverjum tímapunkti?

Neinei…leikurinn var fram og til baka, leikurinn kaflaskiptur og hvorugt liðið mikið framar hinu. Mér fannst við ekki vera alltaf nógu yfirvegaðir, þeir gerðu vel í að sækja hratt á okkur og hafa frábæra leikmenn í því, bæði Singleterry og Everage og mér fannst Sigvaldi líka mjög flottur hjá þeim í kvöld. Við óðum kannski svolítið af stað stundum og ætluðum að taka fyrsta möguleika og taka þátt í hraðanum og á þeim tímapunktum vorum við kannski ekki að nýta okkur okkar styrkleika. Það er kannski viðbúið eftir fyrsta leik í langan tíma – jafnvel meira fyrsti leikur en í fyrstu umferð því þá var eitthvað smá búið að vera í gangi fyrir þann leik. En engar afsakanir, bara virkilega ánægður með hvernig liðið kom til leiks, Miguel steig upp í lokin en það er stórt skref að koma að utan í villta vestrið hér á Íslandi.

Jújú, og Bilic óx líka nokkuð ásmegin eftir því sem á leið…

Jújú, hann var t.d. með gott stökkskot þarna af vítalínunni, hann er með mikið og stórt vopnabúr og við erum rétt að byrja að nota hluta af því. Við vorum að reyna að finna fleiri leiðir í sókninni til að koma honum inn í leikinn en vorum að vísu svolítið einhæfir á sama tíma en meðan það gekk þá var það fínt.

Einmitt. Það stendur væntanlega til að fá bandarískan leikmann – þú ert væntanlega svolítið spenntur fyrir því og það má kannski tala um síðasta púslið…

Já, það er kannski svolítið vont að hafa slíkan mann ekki með eins og í þessum leik gegn svona sterkum bakvörðum eins og ÍR-ingarnir hafa – okkur vantar líka Aron Booker sem er mikill íþróttamaður. En Ástþór Atli kom hins vegar frábær inn í seinni hálfleik, setti þarna 2 þrista og náði and-one á mikilvægum tímapunkti, steig upp og gefur okkur svolítið öðruvísi vídd en hinir. Svo skiluðu Illugi og Benzi framlagi í fyrri hálfleiknum. Það er auðvelt að tala um þá sem skora flest stigin en mér fannst þeirra stig og framganga vera mikilvæg.

Akkúrat. Svo er það KR bara í næsta leik á mánudag, hvernig er stemmningin?

Spenna og tilhlökkun. Maður hugsaði með sér þegar maður hætti með liðið (KR-liðið) fyrir einhverjum árum að það yrði alltaf skrýtið að mæta þeim en nú er langur tími liðinn og maður er búinn að vera hér og þar. En þegar öllu er á botninn hvolft þá er þetta körfuboltaleikur sem bæði liðin vilja vinna. Þetta eru strákar þarna hinum megin sem ég hef alist upp með og elska og hlakka til að spila á móti.

Jájá, þetta verður bara körfuboltaleikur…

Já, nákvæmlega og bara skemmtilegt og ég veit að bæði liðin koma gríðarlega grimm til leiks og ætla að selja sig dýrt og það er gaman að fara í þannig leiki.

Ég held að körfuboltaaðdáendur séu mjög spenntir fyrir mánudeginum…

Jájá og vonandi reyna menn að þyrla upp einhverjum skít og búa til einhverja orrustu – Valur-KR í körfu hefur ekki verið einhverjar svona viðureignir sem slíkar en eftir að hafa verið í báðum félögum þá eru þetta tveir stórir klúbbar með mikla sögu og hefð og ég segi bara að Valur þarf KR og KR þarf Val til að skapa smá átök!

Hvernig er staðan á bandarískum leikmanni, hafið þið augastað á einhverjum eða…?

Það er allt í vinnslu en það er náttúrulega eins og ástandið er búið að vera, maður er með nógu mikið samviskubit yfir því að hafa fengið Miguel til liðsins hérna rétt fyrir síðustu lokun svona fjárhagslega séð og við tókum ákvörðun um að það væri óábyrgt að fara að semja við leikmann án þess að vita neitt um það hvernig framhaldið yrði…en þangað til þá erum við með flottan hóp og þetta verður bara gaman!

Viðtal / Kári Viðarsson