KR lagði Hauka í kvöld í sjöundu umferð Dominos deildar karla, 87-103.

Hérna er meira um leikinn

Karfan spjallaði við fyrirliða Hauka, Emil Barja, eftir leik í Ólafssal.

Ég sá leikinn fyrir mér sem keppni á milli hæðarinnar og hraðans…að KR myndu keyra upp hraðann en þið reyna að nýta hæðina undir körfunni…en það var kannski ekki það sem gerði útslagið eða hvað?

Nja…við hefðum getað nýtt okkur þennan mun betur. Við vorum kannski með stóran mann inn í teig og lítinn mann á honum, þeir voru að fronta og hjálpa á bakvið en við ætluðum bara samt að gefa hann, láta kannski boltann ganga yfir og gefa hann þaðan inn í eða finna einhverja aðra leið til að koma boltanum inn í og nýta styrkleika okkar á einhvern hátt. Ég er ekki sáttur með hvernig það gekk, þetta var svolítið einhæft…

…já svo voru KR-ingar farnir að lesa þetta auðveldlega í seinni hálfleik og farnir að stela boltum ítrekað þegar þið voruð að reyna að henda boltanum út af póstinum…

…jújú algerlega…

Það hafði sitt að segja líka. En var ekki vörnin samt frekar vandamálið, hraðinn hjá KR var kannski að gera ykkur skráveifu…þeir voru að keyra inn í vörnina og skapa opin skot allan leikinn…

Já, algerlega…og hann þarna Ty…sama hvað hann heitir…setti allt á móti okkur og þegar við fórum að hjálpa gegn honum þá setti bara næsti maður skot niður…þetta er skotlið og við vissum svo sem að þeir væru að fara að hlaupa og skjóta og lélegt af okkur að vera ekki búnir að undirbúa okkur betur fyrir það.

Þú varst eitthvað að reyna að verjast þessum Sabin þarna…það gekk bara ekkert alltof vel hjá þér…

Nei! Maður er kannski að verða of gamall í þetta! Neinei, ég segi það nú ekki…

…nei…það er náttúrulega ekkert hægt að stoppa þetta sko…

Hann er náttúrulega að koma úr lélegum skotleik, kom alveg brjálaður og gíraður í þetta og ætlaði að sýna að hann væri betri en síðasti leikur gaf til kynna og gerði vel…

Akkúrat, og maður sá það kannski fyrir að það væri nú ekki endilega gott að mæta KR á þessum tímapunkti…!

Neinei…en við töpuðum líka í síðasta leik og hefðum átt að mæta brjálaðir. Munurinn á okkur núna og í öðrum leikjum var að við byrjuðum af ágætum krafti, við höfum alltaf lent 10-0 undir eða svo en núna var byrjunin betri og við vorum yfir á tíma – en svo í seinni hálfleik þá var eins og við værum bara búnir. Við hættum að elta og hjálpa og þeir bara skutu okkur í kaf.

Já, sammála því að þetta var betri leikur hjá ykkur en undanfarið en kannski fyrir utan það að KR-ingarnir fengu alltof mikið af opnum skotum…

Mér fannst fyrri hálfleikurinn svo sem ágætur, en svo leit þetta ekki nógu vel út varnarlega í seinni. Þeir gátu valið sér skot, við vorum alltaf á eftir, ef við vorum að koma út þá komum við of hægt og þeir fóru fram hjá okkur þá og fundu bara næsta skotmann.

Jájá. En hvernig líst þér á framhaldið hjá ykkur?

Við verðum bara að stíga upp allir sem einn, einkum varnarlega. Við getum ekki verið að fá 100+ stig á okkur alltaf. Við þurfum bara að spila harða og góða vörn, sérstaklega m.v. seinni hálfleikinn hérna í kvöld.

Það stóð til að ræða við fyrirliða KR, Matthías Orra Sigurðarson, en vegna heimsfaraldurs kórónaveirunnar fór það fyrir ofan garð og neðan. Undirritaður lofar góðu viðtali við meistara Matta síðar í vetur.

Viðtal / Kári Viðarsson