Framherjinn Antonio Hester gerði nýverið samning við lið Njarðvíkur í Dominos deild karla. Hester er körfuknattleiksunnendum á Íslandi vel kunnur frá því að hann var einn af betri leikmönnum deildarinnar með Tindastóli, þar sem hann meðal annars vann með þeim bikarmeistaratitilinn.

Njarðvík mætir Tindastóli í kvöld í Síkinu á Sauðárkróki og mun það verða fyrsti leikur Hester með nýja liðinu. Eitthvað virðist þó hafa skolast til í minni hans um veðráttuna á Íslandi, því er hann kom til landsins uppgvötvaði hann að engin var úlpan höfð með.

Félagið varð því að fara á stúfana fyrir kappann og redda honum einni úlpu. Hér fyrir neðan má sjá afrakstur þeirrar leitar, eitt stykki Cintamani úlpa, sem engum ætti að verða kalt í þrátt fyrir norðan átta til fimmtán, frost og snjókomu.

Antonio Hester alsæll með úlpuna