Ágúst Herbert Guðmundsson fyrrum leikmaður, körfuknattleiksþjálfari og Akureyringur lést á nýársdag eftir baráttu sína við veikindi. Ágúst var 53. ára gamall er hann lést en hann greindist með MND sjúkdóminn árið 2017.

Ágúst var uppalin í Hafnarfirði en fluttist til Akureyrar 1982 og var í lykilhlutverki hjá körfuknattleiksdeild Þórs allar götur síðan. Ágúst Guðmundsson lék með liðum Þórs Ak og UFA á árunum 1987 til 1992.

Helst var hann þekktur sem þjálfari liðsins en Ágúst þjálfaði til að mynda drengjaflokk Þórs Ak 1998 sem vann fyrsta meistaratitil Akureyringa í körfubolta er liðið varð Íslandsmeistari. Ágúst þjálfaði einnig meistaraflokk Þórs frá 1992 og undir hans stjórn náðist besti árangur félagsins þá komst liðið í 8 liða úrslit tímabilið 2000-2001 og knúði fram oddaleik í einvígi gegn Haukum.

Ágúst hlaut heiðurviðurkenningu Íþrótta-og frístundaráðs Akureyrar árið 2017 vegna starfa sinna fyrir körfuknattleiksdeild Þórs Akureyrar. Hann hafði einnig hlotið gull-og silfurmerki Íþróttafélagsins Þórs auk þess að taka við gullmerki Körfuknattleikssambands Íslands. Eitt af hans síðustu þjálfaraverkefnum hans var að þjálfa 2001 árgang Þórs sem varð til að mynda Scania Cup meistarar, vakti liðið mikla athygli og er grunnurinn að árangri félagsins í Dominos deild karla síðustu ár.

Þrátt fyrir að Ágúst hafi ekki þjálfað mikið síðustu ár þá var hann helsti stuðningsmaður liðsins og vann hann ötullega að uppbyggingu félagsins.

Óhætt er að segja að Ágúst hafi verið drífandi afl í körfuboltasamfélaginu, bæði á landinu öllu og sérstaklega á Akureyri. Á síðasta tímabili lék lið Þórs í treyjum merktum Ágústi og lék liðið undir yfirskriftinni “Fyrir Ágúst” en Þór hélt sæti sínu í deildinni og kom flestum á óvart.

Þórsarar kveðja því goðsöng úr starfi körfunnar enda Ágúst komið að þjálfun flestra flokka hjá félaginu og starfaði í kringum þá.

Ágúst Guðmundsson lætur eftir sig eiginkonu og þrjú börn. Sonur hans, Júlíus Orri Ágústsson hefur verið í stóru hlutverki í liði Þórs Akureyri síðustu ár og er einn efnilegasti leikmaður landsins.

Körfuboltafjölskyldan hefur misst öflugan meðlim og einstakan einstakling. Karfan þakkar Ágústi fyrir óeigingjarnt framlag sitt til íþróttarinnar sem við elskum öll.

Forsvarsmenn Körfunnar senda fjölskyldu hans og vinum, okkar innilegustu samúðarkveðjur og styrk á þessum erfiðu tímum.

Þórsarar kveðja Ágúst með minningargrein á heimsíðu sinni