Hannes S. Jónsson hefur verið formaður KKÍ frá árinu 2006 – lengst allra formanna í sögu sambandsins – og er óhætt að segja að margir góðir hlutir hafi gerst síðan þá hvað varðar íslenskan körfubolta. Landslagið hefur breyst til batnaðar, iðkendafjöldi stóraukist og öll umgjörð orðin betri enda er körfubolti nú ein vinsælasta íþróttin á Íslandi. En þetta hefur kostað blóð, svita og tár og mikinn tíma af lífi Hannesar. Karfan tók hann tali.

Jæja Hannes, segðu mér aðeins frá þér.

„Ég er Kópavogsbúi – elstur þriggja bræðra og við bjuggum við yndislega foreldraást. Það var því mikið áfall þegar pabbi lést aðeins 46 ára gamall, en þá var ég 27 ára og yngsti bróðir minn 17 ára. Við bræður erum nánir og deilum sameiginlegum áhugamálum, erum því nánast í daglegum samskiptum enn þann dag í dag,“ segir Hannes og bætir við:

„Stærstan hluta grunnskólagöngunnar var ég í Digranesskóla, og svo fór ég í MK og FB í framhaldsskóla.“

Hannes er fjölskyldumaður og er í dag búsettur á Akranesi. „Ég er giftur Bergþóru Sigurjónsdóttur og eigum við Jón Gaut 16 ára og Guðlaugu Gyðu 13 ára. Ég er mjög heppinn hvað ég fæ mikinn stuðning frá Bergþóru og krökkunum í mínu starfi fyrir KKÍ; ég hef oft sagt að við sem erum í eldlínunni í íþróttahreyfingunni, og þá sama hvort það eru stjórnendur, leikmenn, þjálfarar eða dómarar, gætum ekki gefið svona mikið af okkur og helgað okkur íþróttinni okkar nema fyrir öflugan stuðning fjölskyldunnar. Fjölskyldan tekur þátt í þessu brölti með manni.“

Er Ísland tryggði sér sæti á fyrsta stórmótinu EuroBasket 2015

En hvaðan skyldi áhugi Hannesar á körfubolta vera tilkominn?

„Frændi minn, yngsti bróðir pabba hafði farið út til Bandaríkjanna sem skiptinemi og þegar  hann kom heim þá var hann heillaður af körfuboltanum. Hann ákvað að rífa upp körfuna í Breiðablik og ég þá 14 ára fór að aðstoða hann. 15 ára var ég svo kominn í stjórn Breiðabliks því á þessum tíma var Breiðablik bara nokkrir „kallar“ að leika sér í körfu 2-3 í viku. Það má segja að síðan hafi líf mitt snúist um körfubolta eða í rúm 30 ár,“ segir Hannes sem þrátt fyrir mikinn áhuga á íþróttinni hefur ekki æft eða keppt í henni.

Með Guðbjörgu Norðfjörð varaformanni KKÍ og lukkudýri EuroBasket 2015

Hvernig kom það síðan til að þú hófst störf hjá KKÍ?

„Í stjórn Breiðabliks tók ég meðal annars að mér ýmis samskipti við KKÍ – og eitt af því var að sækja ársþing sambandsins; fór á mitt fyrsta þing 1991 og hef sótt öll þing sambandsins frá þeim tíma. Eftir að hafa sótt nokkur þing og fundi þá var ég beðinn um að koma í mótanefnd 1995 og hef tekið þátt í nefndum og stjórnum KKí óslitið síðan.“

Segðu mér frá starfi þínu sem formaður KKÍ, það er væntanlega mjög erilsamt?

„Já, svo sannarlega. Þetta er mjög fjölbreytt starf, og segja má að enginn dagur sé eins, og ef maður hefur skipulagt næsta dag eru töluverðar líkur á að það skipulag breytist. Mér leiðist aldrei í þessu starfi; það skiptir mjög miklu máli að hafa mikinn áhuga og hreinlega brenna fyrir íþróttina,“ segir Hannes sem hefur „mikinn metnað fyrir hönd KKÍ og körfuboltans og þrátt fyrir langa daga og vikur þá þarf krafturinn alltaf að vera til staðar. Ég er einstaklega heppinn með samstarfsfólk og fjölskyldu sem auðveldar mér að sinna starfinu eins vel og ég get.“

Hannes segir að það sé afar mikilvægt „að vera ansi vel með á nótunum hvað er að gerast í öllu okkar starfi; í svona stóru sambandi með fjölbreytt verkefni eru margir sem koma að starfinu og ákvörðunartökum. Hjartað í starfseminni er að sjálfssögðu á skrifstofunni þar sem fyrir utan mig eru þrír frábærir starfsmenn, Kiddi, Snorri og Sigrún, sem brenna af miklum áhuga og þrótti fyrir körfuna. Síðan eru stjórn og nefndir sem vinna mikla vinnu á bakvið  tjöldin sem alltof fáir gera sér grein fyrir. Það eru því mikil samskipti hjá mér inná við hjá okkur – við forráðamenn félaganna – við ÍSÍ og sambandsaðila þar, FIBA og FIBA Europe, Norðurlöndin, fjölmiðla og ríkisvald. Svo ekki sé talað um að svara öllum þeim erindum og tölvupóstum sem berast. Einnig langar mig að nefna samstarf okkar Guðbjargar Norðfjörð en hún er öflugur varaformaður mér við hlið og við heyrumst nokkrum sinnum á dag. Við getum tekist ansi vel á og það er svo hollt að skiptast á skoðunum og pælingum.“

Hannesi þykir pínu snúið að lýsa starfinu í nokkrum orðum, en lætur þó vaða: „Númer 1,2 og 3 er það mjög krefjandi, áhugavert, vandasamt, skemmtilegt, ófyrirsjáanlegt og ansi mikið álag oft og tíðum.“

Hannes og Kristinn Geir Pálsson afreksstjóri sambandsins prófa bolta 2009

Þú kemur inn hjá KKÍ árið 1999 og ert búinn að vera formaður síðan 2006. Hefur mikið breyst í boltanum sjálfum og hjá KKÍ á þessum tíma?

„Það hefur ansi mikið breyst, enda er körfubolti orðin ein vinsælasta íþróttagrein landsins.   Íþróttin hefur „stækkað“ mjög mikið á öllum sviðum og umfang KKÍ hefur svo sannarlega bólgnað mikið út. Fyrir öflugt starf sjálfboðaliðanna okkar hringinn í kringum landið er körfubolti orðinn ein útbreiddasta íþróttagrein landsins og KKÍ heldur úti einu stærsta mótahaldi innan sérsambanda ÍSÍ,“ segir Hannes og heldur áfram: „Landsliðin okkar hafa náð góðum árangri og afreksstarfið okkar orðið ansi stór þáttur af okkar starfsemi. Karlalandsliðið okkar komst á tvö stórmót, sem er eitthvað sem maður þorði varla að ímynda sér að myndi gerast þegar ég tók við formennsku árið 2006.“

Hannes nefnir að „umfjöllun um körfubolta er orðin mjög mikil og á allt öðrum stað en fyrir 10 til 20 árum. Það líður ekki sá dagur að ekki sé fjallað um körfubolta í fjölmiðlum; umhverfið er því gjörbreytt og það er virkilega ánægjulegt. Þessu er að þakka mikil vinna fjölda einstaklinga og eldhuga sem hafa komið að starfi körfuboltans frá upphafi ; við höfum verið heppinn hvað við eigum öflugt fólk sem sinnir sínu starfi af krafti og eldmóð fyrir íþróttina okkar. Það fylgir því líka mikil ábyrgð að við séum orðin ein stærsta íþróttagrein landsins í öllum skilningi – við þurfum að halda áfram að vaxa og dafna og aldrei gleyma okkur í þeirri baráttu.“

Hannes frumsýnir glæsilegan nýjan verðlaunagrip Dominos deildar kvenna

Að mínu mati hefur íslenskur körfuknattleikur aldrei verið betri og við höfum aldrei átt eins sterk landslið og í dag og aldrei átt eins marga atvinnumenn í útlöndum. Ef þetta er rétt hjá mér, þá spyr ég, hvernig stendur á þessu?

„Ég er alveg sammála þér. Félögin okkar vinna góða vinnu og bjóða uppá góða aðstöðu til æfinga. Þetta helst svo þétt í hendur með starfi félaganna og afreksstarfi sambandsins. Með betri árangri landsliðanna, A-landsliðanna og sérstaklega yngri landsliðanna opnast augu félagsliða erlendis fyrir leikmönnum héðan, og þeirra tækifæri verða því mjög opin. Svo nýta leikmenn tækifærin vel og fleiri og fleiri vilja fá  íslenska körfuboltamenn til liðs við sig. Það má segja að yngri landsliðin okkar séu besti glugginn fyrir efnilega leikmenn til að komast áfram í atvinnumennsku erlendis eða í háskólanám í Bandaríkjunum.“

Með Lárusi Blöndal forseta ÍSÍ fyrir blaðamannafund á EuroBasket 2017

Svona í lokin, Hannes, segðu mér frá áhugamálum þínum og hvort þú náir stundum að „kúpla“ þig frá starfinu?

„Ég fæ nú stundum að heyra að það frá mínu fólki að ég megi alveg leggja frá mér símann oftar og vera sjaldnar í tölvunni. En körfuboltinn er nú aðaláhugamálið og það eru forréttindi að fá að starfa við aðaláhugamálið, og það er ansi erfitt að „kúpla“ sig frá því. Auðvitað hef ég gaman af öllum íþróttum og sérstaklega rallý. Ég hef einnig mjög gaman af þjóðfélagsmálum almennt og reyni að vera vel inni í þeim.“

Hannes segir að ferðalög séu fjölskyldu hans hugleikin: „Við Bergþóra höfum verið mjög dugleg að ferðast innanlands alla okkar tíð og það er fátt sem toppar útilegu í íslensku sumarveðri með fjölskyldu og vinum. Það sem mér finnst í raun best er að slaka á og njóta lífsins með fjölskyldu og vinum á góðri stundu.“

Texti / Svanur Már Snorrason