Félagaskiptagluggi 2020-21 tímabilsins hefur verið lengdur um einn mánuð og mun nú standa opinn út febrúar. Mun þetta vera vegna núverandi ástands. Samkvæmt fréttatilkynningu KKÍ er þó að mörgu að huga varðandi ráðningar á leikmönnum. Hér fyrir neðan er hægt að lesa tilkynninguna í heild, sem og þær ráðleggingar sem sambandið gefur.

Fréttatilkynning:

Framundan er tími þar sem erlendir leikmenn geta verið að ganga til liðs við ný lið hér á landi. Félagskiptagluggi þessa keppnistímabils er opin út febrúar (einum mánuði lengra en vanalega) en í ljósi tafa á mótahaldi ákvað stjórn KKÍ að framlengja glugganum þetta árið. Vert er að fara yfir reglur yfirvalda v/ ferðatakmarkana og dvalaraleyfa.

Umsóknarferli og ferðalög leikmanna:
Ferlið í haust var að það að ef leikmaður utan EES/EFTA (td. með bandarískt vegabréf) að þá þurfti viðkomandi að vera kominn með dvalar- og atvinnuleyfi frá Útlendingastofnun (UTL) til að hann gæti ferðast til landsins. Það var staðfesting frá UTL um að umsókn væri samþykkt eða þá að hún væri forsamþykkt. Einungis með leyfi UTL mega leikmenn leggja af stað og ferðast til landsins.

Þessi regla er ennþá í gildi og þurfa leikmenn og þar af leiðandi félögin sem eru að sækja um keppnisleyfi fyrri viðkomandi að leggja inn fullbúna umsókn og greiða fyrir flýtimeðferð hjá UTL. Það er með öllum gögnum sem krafist og í því formi sem óskað er eftir. Þegar UTL hefur svo samþykkt eða staðfest að viðkomandi megi ferðast til landsins er félögum heimilt að fljúga þeim hingað.

Til að halda til haga þá eru undanþágur í gildi. Þær eiga einungis eiga við ef um væri að ræða íþróttamenn í stuttum keppnisferðum hingað, sem á ekki við um íþróttamenn sem hyggjast koma til landsins og spila fyrir íslenskt lið á samningi.

Mikilvægt er að allir sem ferðast til Íslands kynni sér jafnframt gildandi sóttvarnarráðstafanir www.covid.is. Allir leikmenn þurfa svo einnig að fylla út skjal á heimkoma.covid.is eins og aðrir.

Af vef landamæra lögreglunnar:
Um hvaða einstaklinga gilda ferðatakmarkanir?
Ferðatakmarkanir gilda um alla ríkisborgara þriðju landa*, óháð því hvort viðkomandi þurfi vegabréfsáritun eða geti ferðast án vegabréfsáritunar inn á Schengen-svæðið. Hins vegar eru í gildi tilteknar undanþágur frá ferðatakmörkunum sem fjallað er nánar um hér að neðan.

*Ríkisborgarar þriðju landa teljast hér þeir einstaklingar sem hvorki eru EES/EFTA-borgarar né ríkisborgarar Andorra, Mónakó, San Marínó eða Vatíkansins – óháð því hvort þeir teljist venjulega fullnægja skilyrðum fyrir komu.

Önnur nauðsynleg gögn vegna ferðalaga til Íslands:
Allir farþegar þurfa að hafa meðferðis gild ferðaskilríki (vegabréf), ásamt vegabréfsáritun (visa) ef við á.

Erlendir ríkisborgarar með gilt dvalarleyfi eða annars konar dvalar- eða búseturétt á Íslandi, í öðru EES/EFTA-ríki eða í Andorra, Mónakó, San Marínó eða Vatíkaninu:
Gilt dvalarleyfiskort EÐA staðfesting frá Útlendingastofnun á að dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun hafi verið veitt.


ATH varðandi leikmenn frá Bretlandi/UK – Breyting 1. janúar 2021:

Frá 1. janúar 2021 (00h00 CET) munu breskir ríkisborgarar, sem í dag njóta frjálsrar farar sem ríkisborgarar EES/EFTA svæðisins, teljast til þriðju ríkis borgara þegar aðlögunartímabili vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu lýkur þann 31. desember 2020 (23h59 CET).

Þetta þýðir að frá áramótum munu þær reglur sem gilda um komu þriðju ríkis borgara einnig ná til komu breskra ríkisborgara, m.a. um ferðatakmarkanir vegna COVID-19.

ATHUGIÐ hins vegar að breskir ríkisborgarar (og fjölskyldumeðlimir þeirra) sem hafa fasta búsetu á Íslandi eða eiga hér dvalar- eða búseturétt fyrir 31. desember 2020 munu halda þeim réttindum sínum eftir 1. janúar 2021 í samræmi við samning sem undirritaður var af EES/EFTA ríkjunum og Bretlands um útgönguskilmála.

Þessir bresku ríkisborgarar (og fjölskyldumeðlimir þeirra) geta því enn ferðast til og frá Íslandi og ferðatakmarkanir vegna COVID-19 eiga ekki við þá. Þar til íslensk stjórnvöld hefja útgáfu nýrra dvalarskírteina fyrir breska ríkisborgara sem eiga hér dvalar- eða búseturétt fyrir 1. janúar 2021 þá er mælt með því að breskir ríkisborgarar sem hyggjast ferðast yfir landamærin sæki um búsetutímavottorð (C-122) hjá Þjóðskrá til sönnunar á dvalarrétti hér á landi.

Nánar er hægt að lesa um ferðatakmarkanir á vef Lögreglunnar hérna