Enginn körfubolti hefur verið leikinn síðan í byrjun október á Íslandi. Síðan þá og þangað til í síðustu viku var það einnig óheimilt fyrir lið í efstu deildum að æfa. Það bann við keppni sem stendur nú gildir allavegana þangað til um miðjan janúar 2021.

Mótahald hefur því raskast svo um munar og samkvæmt fregnum mun KKÍ vera að vinna að því að endurskipuleggja Íslandsmót og aðrar keppnir, sem skammt voru komnar á veg þegar að bönnin tóku upphaflega gildi í haust.

Fróðlegt verður að sjá hver næsta lending þessara mála verður og hvaða leiðir sambandið kjósi svo hægt sé að ekki aðeins koma 2020-21 tímabilinu aftur í gang, heldur einnig með hvaða móti sé hægt að klára það.

Nýr þjálfari KR í Dominos deild karla Darri Freyr Atlason deildi sínum hugmyndum fyrr í dag á samfélagsmiðlum, en í þeim fer hann í fáum orðum yfir hvað honum þyki hvað mikilvægast varðandi endursetningu móts og með hvaða leiðum hægt sé að skipuleggja tímabilið frá þessum erfiða tímapunkti. Þráðinn er í heild hægt að lesa hér fyrir neðan.