Rétt í þessu veittu yfirvöld 1. deildum karla og kvenna undanþágu til æfinga. Staðfestir KKÍ þetta í fréttatilkynningu til fjölmiðla og félaga. Munu það því vera efstu tvær deildir karla og kvenna sem hefja mega æfingar frá og með deginum í dag. Tilkynninguna er hægt að lesa hér fyrir neðan.

Fréttatilkynning:

Nú fyrir skömmu samþykkti Heilbrigðisráðuneytið þá undanþágubeiðni sem KKÍ sendi inn vegna æfinga liða í 1. deildum karla og kvenna, sem er mikið fagnaðarefni.

KKÍ hefur í samvinnu við HSÍ og ÍSÍ sett mjög skýrar sóttvarnarreglur um framkvæmd æfinga aðildarfélaga, en reglurnar eru grundvöllur þess að hægt sé að hefja æfingar. Sóttvarnarreglurnar má nálgast hér.

KKÍ leggur mikla áherslu á það að þjálfarar, leikmenn og aðrir þeir einstaklingar er koma að liðunum sýni ábyrgð og gæti sérstaklega að eigin sóttvörnum. Það er ekki sjálfgefið að íþróttaæfingar geti farið fram við þessar aðstæður, eins og íþróttahreyfingin þekkir orðið ansi vel. Við erum þess fullviss að íþróttahreyfingin muni standa undir þessum kröfum sem settar eru á hana og gæta vandlega að sínum sóttvörnum.