Landsliðsmaðurinn Jón Axel Guðmundsson verður í nýliðavali NBA deildarinnar annað kvöld. Vegna heimsfaraldurs Covid-19 mun valið fara rafrænt fram í gegnum höfuðstöðvar ESPN sjónvarpsstöðvarinnar í Connecticut.

Jón Axel kláraði glæsilegan háskólaferil sinn með Davidson síðastliðið vor áður en hann gerðist atvinnumaður hjá Fraport Skyliners í þýsku Bundesligunni. Líkt og kom fram á Körfunni í gær, mun það að miklu leyti vera vaskelg framganga hans þar sem kom honum á lista USA Today yfir líklega leikmenn til þess að vera valda inn í deildina.

Nú í morgun sendir KKÍ Jóni sínar bestu kveðjur fyrir valið í fréttatilkynningu. Bendir sambandið þar á hvaða þrjú lið það eru sem líklegust eru til þess að velja Jón í valinu.

Gríðarlegur fjöldi leikmanna er á hverju ári í valinu en eingöngu eru 60 leikmenn valdir í tveim umferðum. Þegar þetta er ritað er vitað af talsverðum áhuga nokkura liða sem eiga valrétt í seinni umferðinni og þau lið sem mögulega gætu kosið að velja Jón Axel þá eru: (Valréttur + Lið)

32. Charlotte Hornets
35. Sacramento Kings
48. Golden State Warriors

Það er því mikið afrek að vera valinn og fá samning hjá NBA liði. Pétur Guðmundsson er eini Íslendingurinn sem leikið hefur í deildinni. Hann var valinn, sem þá var þriðja umferð, af Portland Trail Blazers árið 1981 og lék í deildinni til 1989 með Portland, San Antonio og Lakers. Jón Arnór Stefánsson var síðan á samning hjá Dallas Mavericks 2003-2004 en lék ekki í deildinni á meðan hann var í þeirra herbúðum. Tryggvi Snær Hlinason fór í nýliðavalið að auki árið 2018 en var ekki valinn.

Pétur Guðmundsson með Los Angeles Lakers

Það verður því spennandi að sjá hvað mun gerast en leikmenn geta svo fengið samninga við NBA-lið þó þeir verði ekki valdir í sjálfu nýliðavalinu.  Jón hefur vakið umtal með frammistöðu sinni með Davidsson og hefur haldið áfram að leika vel sem atvinnumaður en í fyrstu fimm leikjunum hefur hann skilað 18 stigum, 5 fráköstum og 5 stoðsendingum að meðaltali í leik.

Næsta verkefni Jóns Axels verður svo landsliðsglugginn sem fram fer í FIBA „bubblu“ í Slóvakíu með karlalandsliðinu sem stendur yfir dagana 23.-29. nóvember. Þá verða tveir landsleikir á dagskránni gegn Lúxemborg og Kosovó í undankeppni HM 2023.