Íslenska landsliðið leikur tvo leiki í undankeppni EuroBasket 2021 í vikunni. Báðir fara leikirnir fram í búbblu í Grikklandi, þar sem að fyrri leikur þeirra fimmtudaginn 12. gegn sterku liði Slóveníu og laugardaginn 14. gegn Búlgaríu. Báðir verða leikirnir í beinni útsendingu á RÚV.

Karfan ræddi við leikmann liðsins Guðbjörgu Sverrisdóttur og spurði hana út í aðstæður í Grikklandi og leikina tvo.

Hvernig eru aðstæður í Grikklandi?

“Við erum auðvitað í þessari búbblu og erum mikið að hanga einar á milli æfinga. Hótelið sem við erum á er mjög flott og maturinn hefur verið mjög góður hingað til. Hins vegar er grenjandi rigning og hafa verið þrumur og eldingar hérna með stuttu millibili þannig það getur verið smá blautt að hlaupa á milli hótels, rútu og íþróttahúss. Íþróttahúsið er mjög stórt og flott. Mikil gæsla er í kringum búbbluna og eru allir hitamældir þegar við komum inn í íþróttahúsið eða á hótelið. Vorum að koma úr fyrra covid prófinu hérna úti og grímur eru skylda alls staðar nema þegar við borðum eða erum einar inni á herbergi”

Hverjir er styrkleikar og veikleikar þess liðs sem saman er komið?

“Ég held að okkar helsti veikleiki sé auðvitað leikformið sem við erum í, því miður erum við ekki í óskastöðu þar sem stór meirihluti okkar hefur ekki spilað körfubolta síðan að bann við íþróttaiðkun hófst á höfuðborgarsvæðinu í byrjun október. Við höfum núna náð tveimur æfingum og má kannski segja að við séum smá ryðgaðar en allar að koma til. Ég tel að okkar helsti styrkleiki sé hins vegar sá að við höfum nákvæmlega engu að tapa og finnum ekki fyrir mikilli pressu. Liðið sem er komið saman nær mjög vel saman og margar sem hafa spilað saman í yngri landsliðum eða félagsliðum heima þannig enginn að hitta neinn í fyrsta skiptið hérna”

Breytir væntanlega leik liðsins að vera án Helenu og Hildar?

“Já, það breytir miklu að missa Helenu og Hildi, tvo leikjahæstu og reynslumestu leikmennina okkar úr hópnum, þeirra hæð og styrkur skilja eftir stór skörð en maður kemur í manns stað og allt það. Nú er bara tækifæri fyrir aðra leikmenn að stíga upp og ef við fáum framlag frá öllum þá vonandi náum við að fylla í sporin sem þær skilja eftir sig”

Hverjir eru möguleikar ykkar í leikjunum tveimur?

“Ég held við eigum alveg að geta tekið þessa tvo leiki. Brekkan er hins vegar brött framundan þar sem við erum að spila við Slóveníu sem er rankað númer 2 í Evrópu og síðan Búlgaríu sem við töpuðum á móti í seinasta glugga. Við þurfum allar að hitta á góðan leik til þess að eiga möguleika gegn þeim og ég veit að við munum koma alveg brjálaðar í þessa leiki og með 110% baráttu”

Við hverju mega íslenskir aðdáendur ykkar búast?

“Íslenskir aðdáendur mega búast við hörku baráttu og fjörugum leikjum”