Hér að neðan má sjá einkunnir leikmanna íslenska liðsins úr leiknum gegn Lúxemborg. Leikmönnum eru gefnar einkunnir útfrá tölfræði, væntingum til þeirra miðað við hlutverk og spilatíma og líka þáttum sem sjást ekki endilega í tölfræðiskýrslunni.

Elvar Már Friðriksson – 5
Elvar átti frekar erfitt uppdráttar í dag. Lifandi tapaðir boltar sem urðu að körfum hinum megin og skaut 2/10 utanaf velli. Fleiri tapaðir boltar en stoðsendingar. Vil talsvert skilvirkari leik frá Elvari.

Hörður Axel Vilhjálmsson – 5
Hörður var að venju öflugur varnarlega og var sá sem kom Íslandi loksins í jafnann leik. Hann átti hins vegar erfitt sóknarlega. 3/9 í skotum og það kom lítið út úr veggnum og veltunni.

Jón Axel Guðmundssson – 6
14 stig, 9 fráköst og bara 1 tapaður bolti. Jón átti mjög erfitt uppdráttar í fyrri hálfleik og mikið af hans stigum komu seint þegar forystan var orðin talsverð. Ætti ða vera okkar sterkasti sóknarmaður í fjarveru Martins og Hauks. Stígur vonandi betur upp í næsta leik.

Sigtryggur Arnar Björnsson – 7
Kom Íslandi á bragðið í byrjun leiks og var einn af fáum sem var vakandi í fyrri hálfleik. Hafði hægt um sig í seinni hálfleik en skilaði sínu fínt í dag.

Tryggvi Hlinason – 7
Tryggvi var einfaldlega afleitur fyrri hluta leiksins. Hann tók hins vegar heldur betur við sér þegar að leið á leikinn. Menn hættu líka að lobba á hann pulsulegum sendingum. Tryggvi lauk leik með 24 stig og 11 fráköst.

Ægir Þór Steinarsson – 7 – maður leiksins
Ægir var hikandi í fyrri hálfleik en sá tók við sér í síðari hálfleik. Allt í öllu varnarlega og var duglegur að búa til færi fyrir liðsfélaga sína. Flott skotnýting og stal 3 boltum.

Kári Jónsson – 6
Átti erfitt uppdráttar varnarlega og sniðskotin voru ekki að detta. Hann setti samt tvo mikilvæga þrista og skoraði nokkur stig í fyrri hálfleik þegar það gekk almennt illa.

Tómas Þórður Hilmarsson – 5
Fínn varnarlega en setti að öðru leiti ekki mikið mark á leikinn.

Ragnar Nathanaelsson – Spilaði ekki

Breki Gylfason – Spilaði ekki

Gunnar Ólafsson – Spilaði ekki

Hjálmar Stefánsson – Spilaði Ekki