Íslenska karlalandsliðið er komið til Slóvakíu til þess að leika tvo leiki í undankeppni heimsmeistaramótsins 2023. Fara leikirnir báðir fram í sóttvarnarbólu FIBA í Bratislava, en sá fyrri er gegn Lúxemborg þann 26. og seinni gegn Kósovó 28. nóvember.

Karfan setti sig í samband við leikmann liðsins Sigtrygg Arnar Björnsson og spurði hann út í ferðina og leikina tvo sem Ísland spilar.

Nú eruð þið komnir til Bratislava, hvernig fer um liðið í sóttvarnarbólunni?

“Það fer bara vel um okkur hérna. Hótelið er fínt og við erum með allt sem við þurfum inná því”

Hvernig líst þér á þennan hóp sem var settur saman? Hverjir eru helstu veikleikar og styrkleikar?

“Mér líst vel á þennan hóp. Þetta eru allt strákar sem hafa getuna til þess að spila á háu stigi. Við erum ekki með mjög hávaxið lið, en það er svo sem ekkert nýtt fyrir okkur. Við erum hraðir og með góða skotmenn og ættum að geta nýtt okkur það á opnum velli”

Heldur þú að það verði erfitt fyrir leikmennina sem koma frá Íslandi að komast í leikform eftir að hafa verið í æfingabanni síðan í byrjun okróber?

“Nei ég held að það verði ekkert mál. Ég er viss um að það hafi allir fundið einhverja leið til þess að halda sér í fínu standi frá því í október. Leikformið verður komið eftir eina til tvær æfingar”

Fyrirfram haldið að Ísland sé betra en bæði liðin sem þið spilið við, hvað þurfið þið að gera til þess að loka þessum tveimur leikjum?

“Við þurfum að mæta agressívir en agaðir frá fyrstu mínútu og fara eftir leikplaninu sem þjálfararnir leggja upp með. Ef við gerum það, þá setjum við okkur í góða stöðu til þess að vinna þessa leiki”

Hafið þið eitthvað náð að skoða andstæðingana?

“Við förum strax í það að skoða andstæðingana þegar hópurinn er allur kominn saman. Strákarnir sem eru að spila úti mæta á morgun. En annars mættum við Kosovo í síðasta glugga og þekkjum því aðeins til þeirra”

Við hverju mega íslenskir aðdáendur búast?

“Þeir mega búast við að við leggjum okkur alla fram í þetta verkefni. Ég held að það búist flestir við tveim sigrum hérna og við munum gera allt til þess að sækja þá”

Myndir með frétt fengnar að láni hjá Miðherja