Leikmaður Njarðvíkur í Dominos deild karla Zvonko Buljan hefur verið dæmdur í þriggja leikja bann af aga- og úrskurðarnefnd KKÍ fyrir háttsemi sína í leik gegn KR í fyrstu umferð deildarinnar.

Ekki er ljóst hvenær leikar hefjast aftur í Dominos deildinni sem var frestað til 19. október fyrr í dag, en séu þetta leikir í deildinni sem Buljan missir af, má gera ráð fyrir að þetta séu heimaleikir gegn Haukum og Keflavík og útileikur gegn Tindastól.

Úrskurðinn er hægt að lesa í heild hér fyrir neðan, en þrír aðrir leikmenn og þjálfarar fengu niðurstöðu agamála sinna í dag með áminningu.

Úrskurður aga- og úrskurðanefndar:

Agamál nr. 15/2020-2021

Viðburður:                       Leikur KR og Njarðvíkur í Dominos-deild karla, sem leikinn var þann 2. október 2020.

Kærði:                               Zvonko Buljan, leikmaður Njarðvíkur.

Kærandi/ur:                      Dómaranefnd KKÍ.

Málavextir

Með kæru til aga- og úrskurðarnefndar KKÍ (hér eftir nefndin) frá dómaranefnd KKÍ, sem barst nefndinni þann 3. október 2020, var vísað til nefndarinnar háttsemi hins kærða í áðurnefndum leik. Í lýsingu dómaranefndar á háttseminni kemur fram að um sé að ræða grófan leik eða ofbeldi en á myndbandsupptöku sem fylgdi kæru má sjá hvernig kærði greip í kynfæri leikmanns KR.

Ekki bárust athugasemdir frá hinum kærða eða félagi hans.

Niðurstaða aga- og úrskurðarnefndar

Skv. 4. mgr. 6. gr. reglugerðar um aga- og úrskurðarmál er nefndinni m.a. heimilt að taka til meðferðar kæru á agabroti sem framið var án vitundar dómara leiksins eða dómari ekki vísað viðkomandi af leikvelli eða keppnisstað, ef gögn sýna á óyggjandi hátt að brot hafi verið framið. Er nefndinni m.a. heimilt að byggja á myndbandsupptöku af leiknum.

Á myndbandsupptökunni sem nefndinni barst má sjá að hinn kærði grípur í kynfæri leikmanns KR og telur nefndin að myndbandið sýni með óyggjandi hætti að brot hafi verið framið sem hefði leitt til brottvísunar hefði dómari séð það. Að mati nefndarinnar er ljóst að ásetningur stóð til þess af hendi kærða að grípa í kynfæri leikmanns KR. Telur nefndin að slík háttsemi falli undir verknaðarlýsingu d. liðar 1. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar en þar segir m.a. að hafi einstaklingi verið vísað af velli vegna viljandi líkamsmeiðingar eða tilraunar til slíks skuli aga- og úrskurðarnefnd úrskurða viðkomandi í að minnsta kosti þriggja leikja bann.

Ljóst er að hinum kærða var ekki vísað af leikvelli vegna brotsins og vísast því til j. liðar 1. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar, þar sem segir að sé aðili kærður til aga- og úrskurðarnefndar sem ekki hefur verið vísað af leikvelli eða leikstað hefur aga- og úrskurðarnefnd heimild til að dæma viðkomandi í tímabundið leikbann í öllum flokkum.

Með vísan til ákvæðis j. liðar 1. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar, sbr. d. lið. 1. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar, skal hinn kærði sæta þriggja leikja banni vegna hins kærða atviks.

Úrskurðarorð

Hinn kærði, Zvonko Buljan, skal sæta þriggja leikja banni vegna háttsemi sinnar í leik KR og Njarðvíkur í Dominos-deild karla, sem leikinn var þann 2. október 2020.

Reykjavík 7. október 2020

Þórólfur Heiðar Þorsteinsson, formaður

Hrefna Dögg Gunnarsdóttir, varaformaður

Kristinn G. Kristinsson

Birkir Guðmundarson